140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[17:59]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Við hv. þingmaður erum hjartanlega sammála um dómaraheimildina og ég fagna því líka sem ég vissi að það væri stefna Framsóknarflokksins að skoða tvöfalt lögheimili á Íslandi. Nefndin sem samdi þetta frumvarp átti að skoða þá hugmynd en hún hafnar því í raun og veru að taka upp tvöfalt lögheimili og hv. þingmaður vísaði til þess að tvöfalt lögheimili væri ekki fyrirkomulag sem tíðkaðist annars staðar á Norðurlöndum.

Ég mundi kannski vilja árétta að sagan er ekki alveg svona einföld vegna þess að til er hugtak sem heitir „jöfn búseta“ og tíðkast á sumum Norðurlöndum. Þá er heimilt að haka við, í einhverju formi, að foreldrar barna eftir skilnað kjósi að hafa barnið í jafnri búsetu. Það felur í sér að barnið hefur í raun og veru tvö heimili, það er horfst í augu við það. Mér er það alveg óskiljanlegt af hverju við höfum ekki stigið skref í þessa átt á Íslandi. Ég held reyndar að á Íslandi, úr því sem komið er, vegna þess að skilyrði okkar eru aðeins öðruvísi en annars staðar á Norðurlöndunum, sé einfaldasta leiðin til að taka upp jafna búsetu, að leyfa einfaldlega tvöfalt lögheimili. Það þarf ekki að breyta svo miklu til að það sé hægt og það væru sett augljós skilyrði fyrir því eins og til dæmis að foreldrar byggju í sama skólahverfi og svoleiðis. Það er mjög auðvelt að búa til slík skilyrði. Með því að taka þetta upp værum við að horfast í augu við það, sem ég held að sé skynsamlegt, að mjög margir foreldrar kjósa að ala upp börnin sín saman eftir skilnað. (Forseti hringir.)

Ég mundi gjarnan vilja koma á framfæri smáupplýsingum ef það kæmi andsvar.