140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[18:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem fram hefur farið um þetta frumvarp sem deilt er um, að takmörkuðu leyti þó. Það eru tilteknar greinar í frumvarpinu sem valda deilum. Reyndar furðaði ég mig svolítið á ræðu hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar í upphafi umræðunnar þegar hann spurði með nokkrum þjósti hvað ég vildi upp á dekk með þetta frumvarp sem forveri minn í embætti hefði verið tilbúinn með og ég hefði síðan leyft mér að krukka í og aðskiljanlegar nefndir hefðu verið á sama máli og forveri minn.

Ég vil minna Alþingi á að á endanum er það þingsins að taka ákvörðun. Ef meiri hluti þingsins er sammála hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni en ekki mér um þau atriði sem við deilum um, þá verður það niðurstaðan. Við megum ekki láta deilumál um einstaka þætti frumvarpsins, þó að þeir séu mjög mikilvægir, koma í veg fyrir að þetta mikilvæga frumvarp verði að lögum.

Við megum ekki missa sjónar á því að hér er verið að lögfesta ýmsar grunnreglur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að mínum dómi að styrkja stórlega réttarstöðu barna og um það er ekki deilt. Deilur standa hins vegar um hvort nægilega sé hugað að réttindum foreldranna. Þá skulum við minnast þess að á Íslandi er grunnreglan sú að forsjá er sameiginleg, það er grunnreglan á Íslandi. Deilurnar standa um hvað skuli til bragðs taka þegar foreldrar geta ekki orðið ásátt um sameiginlega forsjá. Hvað á að gera þá? Á dómari að hafa ákvörðunarvald í þeim efnum eða á að fara þá leið sem við leggjum til í frumvarpinu og ég legg til, að farin verði svokölluð sáttaleið?

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson vakti athygli á því að kannanir í Danmörku hefðu sýnt að eftir úrskurð dómara um sameiginlega forsjá töluðust 50% foreldra að sönnu ekki við en honum þótti mjög ánægjulegt að 50% gerðu það. Mér þykja þetta hörmulegar niðurstöður, að foreldrar barna sem hefur verið dæmd sameiginleg forsjá skuli ekki talast við. Þetta finnst mér ósigur kerfisins og við eigum ekki að taka slíkum ósigri. Þegar menn vitna fjálglega í reynsluna erlendis frá þá er ég með skýrslu frá dönsku Familiestyrelsen þar sem metin er reynslan af heimildum dómara til að dæma sameiginlega forsjá. Hér er sagt að þetta hafi ekki leitt til þess að samskipti foreldra hafi batnað. Dönsk yfirvöld eru að endurmeta þessi lög, þessar heimildir dóma, með hliðsjón af reynslunni þannig að þegar vísað er til stöðu mála annars staðar á Norðurlöndum, eins og hér hefur verið gert, þá er hún ekki einhlít á þann veg sem haldið er fram. Því fer fjarri og reyndar vil ég halda því fram að sporin hræði úr danska og sænska réttarkerfinu, sérstaklega því danska þar sem ég hef því miður haft aðstöðu til að fylgjast með framgangi mála, þar á meðal máls sem íslensk fjölskylda hefur átt í.

Ég ætla ekki að ræða málefni einstaklinga eða einstakra fjölskyldna en ég vil bara segja að reynslan af þessu kerfi er ekki góð. Og þegar menn koma hingað í ræðustól og taka bakföll yfir því að réttarkerfið skuli gagnrýnt og að ég sem ráðherra dómsmála skuli leyfa mér annað eins, þá spyr ég: Á hvaða öld eru menn eiginlega uppi? Ég hlíti að sjálfsögðu niðurstöðu dóma þótt ég sé ósáttur við þá. Ég gagnrýndi harkalega niðurstöðu Hæstaréttar þegar hann dæmdi að kosning til stjórnlagaþings hefði verið ólögleg. Mér fannst það slæmur dómur. Ég var mjög ósáttur við hann en ég var reiðubúinn að hlíta honum. Það er allt annar handleggur.

Ég hef margoft sagt sögu sem ég ætla að segja aftur, reynslusögu af ráðstefnu sem ég sótti suður í Rómaborg á síðasta ári. Hún fjallaði um samskipti fórnarlamba kynferðislegs ofbeldis við réttarkerfið, í því tilviki franska réttarkerfið. Síðan komu reyndar aðrir upp og vísuðu í réttarkerfi í sínu heimalandi. Þar kom fram ungur maður sem hafði á unga aldri verið beittur kynferðislegu ofbeldi. Hann sagði okkur hvernig hann hafði rétt fram höndina til hjálpar en enginn hafði orðið til að taka í hana. Réttarkerfið hafði brugðist. En síðan bætti hann við: Á þessu hefur orðið breyting. Það hefur átt sér stað vitundarvakning, í réttarkerfinu, ekki bara í samfélaginu almennt heldur einnig í réttarkerfinu. Það er farið að bregðast við á annan hátt en var.

Það er líka staðreynd og það er ekki af neinni léttúð sem vísað er í skýrslur sem sýna fram á það að mjög sterkar vísbendingar séu fyrir því að mjög hátt hlutfall kvenna í náinni sambúð verði fyrir ofbeldi. Þegar menn spyrja hvort ég hafi efasemdir um dómskerfið þegar kemur að fjölskyldumálum og deilumálum og einhverju sem hugsanlega skarast við ofbeldismál þá segi ég að ég hafi þær efasemdir. Það er ekki þar með sagt að ég sé að gagnrýna dómskerfið í heild sinni í öllum þáttum þess. Ég er að segja að íslenskt samfélag sé að vakna til vitundar um ofbeldi sem lítil börn eru beitt. Það er ekki langt síðan að á Íslandi var ekki talað um sifjaspell, það var ekki talað um ofbeldi gegn börnum. Það var engin frétt, þetta gerðist bara í útlöndum. En nú er talað um þetta. Við höfum verið að vekja athygli á því að konur sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi hafi ekki treyst sér til að leita aðstoðar réttarkerfisins sem skyldi. Við höfum haldið þessu fram. Sumir hafa brugðist illa við og ekki viljað ræða þetta en þegar á heildina er litið taka aðilar innan réttarkerfisins, lögreglunnar og innan dómskerfisins nú þessari umræðu opnum örmum og eru tilbúnir að skoða sjálfa sig. Þess vegna bið ég hv. þm. Guðmund Steingrímsson að hugsa það upp á nýtt þegar hann tekur vandlætingarbakföll sín yfir því að ég skuli leyfa mér að hafa uppi efasemdir um réttarkerfið, hvort sem það er hér eða í Frakklandi eða annars staðar á Norðurlöndum um einstaka þætti.

Það sem vakir fyrir okkur með þessu er fyrst og fremst að styrkja réttarstöðu barna. Ef það er svo að foreldrar geti ekki náð saman með sátt þá spyr ég: Verður sú sátt knúin fram með dómi á milli stríðandi aðila? Niðurstöður sýna okkur að helmingur foreldra sem er knúinn til slíkra sátta talast ekki við.

Síðan er það rangt sem hv. þingmaður segir að það sé nær einhlítt að mæðrum sé dæmd forsjá. Það er ekki rétt, þetta eru rangar upplýsingar sem hann hefur. Ég man ekki hverjar prósentutölurnar eru, ég hef þær ekki frammi fyrir mér, hvort hlutfallið er 60/40, 70/30, einhvers staðar á því bili. Þegar hv. þingmaður spyr um hvatann sem foreldrar og mæður hafa til að ganga til sátta og í sáttaumgjörðina, hver er sá hvati? Þetta verður gert lögbundið. Það verður skylda að ganga inn í slíkt ferli og við ætlum að verja umtalsverðum fjármunum til að auðvelda fólki að taka sameiginlega á málum sínum. Hvers vegna? Fyrir barnið. Það er hinn hvatinn sem móðir og faðir eiga að sjálfsögðu að hafa og sýna að þau beri hag barnsins síns fyrst og fremst fyrir brjósti þegar deilur eru uppi.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Nú fer frumvarpið til umfjöllunar í velferðarnefnd og ég ítreka að það fjallar um margvíslega þætti sem snúa að réttarstöðu barna sem ég þykist vita að við erum öll sammála um. Ég geri mér grein fyrir þessum miklu deilumálum um hvort dómarar eiga að fá heimild til að dæma sameiginlega forsjá. Þar er ég á öndverðum meiði við flesta þá þingmenn sem hafa tekið til máls í þessari umræðu en það er aðeins hluti þingsins. Á endanum ræður málefnaleg umfjöllun um málið í þinginu úrslitum og síðan meiri hluti atkvæða. En það er mjög mikilvægt að þetta mál verði afgreitt frá þinginu vegna þess að það styrkir mjög réttarstöðu barna á Íslandi.