140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[18:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að taka aðeins fleiri bakföll út af málflutningi hæstv. innanríkisráðherra, fyrst hann kýs að kalla þetta bakföll af hneykslan eða þjósti, eins og hann orðaði það. Þetta er mér einfaldlega mjög mikið hjartans mál. Ég get bara ekki fallist á málflutning hæstv. innanríkisráðherra og verður náttúrlega svo að vera. Það er rétt hjá honum að þingið tekur auðvitað afstöðu á endanum.

Nú ætla ég að reyna að skilja hæstv. innanríkisráðherra rétt. Hann nefnir ofbeldismenn. Ég er ekki alveg reiðubúinn að una við að gefið sé í skyn að þegar ég segi að dómarar eigi að hafa heimild til að dæma sameiginlega forsjá að ég sé þá á einhvern hátt að mælast til þess að ofbeldismenn fái forsjá. Ég vil bara fá það á hreint hvort hæstv. innanríkisráðherra metur málflutning þeirra sem mæla fyrir dómaraheimild þannig að þeir mælist til þess á einhvern hátt að ofbeldismenn haldi forsjá eða fái forsjá yfir börnum sínum. Ég vil fá það á hreint.

Varðandi það hvort mæður fái yfirleitt forsjána eða ekki og þann hvata til sátta sem felst í því, er í greinargerð frumvarpsins vísað í tölur frá 2008. Alls enduðu 152 forsjármál með því að móðir fékk forsjána, 12 enduðu þannig að feður fengu forsjána. Mér finnst það mjög mikill munur. Mér finnst ég greina ákveðna meginreglu út úr slíkum tölum í þeim málum sem þó fara fyrir dóm, að móðir fær forsjána. Eins og segir alveg ágætlega í greinargerðinni yrði það meiri hvati til sátta, meiri hvati til (Forseti hringir.) að sáttameðferð, sem vissulega yrði skylda, mundi leiða til góðrar niðurstöðu, (Forseti hringir.) ef dómarar fengju heimild til að dæma sameiginlega forsjá.