140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

barnalög.

290. mál
[18:18]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við þurfum að ganga úr skugga um hvað er rétt í þessum tölulegu upplýsingum. Ef ég hef farið rangt með það, leiðréttist það, við skulum bara skoða það hvað er rétt í þeim efnum, en þetta er ekki í samræmi við þær tölur sem bornar hafa verið á borð fyrir mig. Látum það vera.

Því fer fjarri að ég sé að gefa það í skyn að ég telji að með málflutningi sínum sé hv. þingmaður á einhvern hátt að halda hlífiskildi yfir ofbeldismönnum.

Ég vil hins vegar vísa í rannsóknir sem gerðar hafa verið þar sem fram hefur komið að í dómum hafi ekki nægjanlegt tillit verið tekið, alla vega að mati skýrsluhöfunda, til vafa sem leiki á að um ofbeldi kunni að hafa verið að ræða. Það er mjög rík sönnunarskylda þar uppi. Ég vísa þar í reynslu mína sem mannréttindaráðherra að málum sem komið hafa inn til mín, meðal annars frá Norðurlöndum, þar sem mér finnst ákveðin staðfesting fást á því.

Við skulum ekki gleyma því að Ísland hefur stigið ákveðin framfaraskref umfram aðrar þjóðir í þessu efni með tilkomu Barnahúss og viðleitni til að treysta og tryggja réttarstöðu barna.

Ég er ekki að bera neinar sakir á hv. þingmann og er fullviss um að ekkert annað en gott vaki fyrir honum. Ég vil upplýsa hann og aðra hv. þingmenn um að ég hef fengið mikið af póstum í tengslum við málið frá hagsmunaaðilum. Ég get alveg sagt að þeir eru margir mjög ofbeldisfullir og hótandi þannig að umræðan er mjög tilfinningaþrungin og (Forseti hringir.) oft og tíðum ekki sanngjörn, vil ég segja.