140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða áfram um þann áfellisdóm sem verkalýðshreyfingin hefur fellt yfir ríkisstjórninni og kemur fram í ályktunum aðildarsamtaka ASÍ. Ég gríp hér niður í ályktun Verkalýðsfélags Akraness, með leyfi forseta:

„Það er þyngra en tárum taki að nú virðist núverandi ríkisstjórn ætla að svíkja íslenskt launafólk illilega þriðja skiptið í röð.

Fyrsta skiptið sem ríkisstjórn Íslands sveik verkalýðshreyfinguna var samkomulag sem gert var […] 17. febrúar 2008 um verðtryggingu og krónutöluhækkanir persónuafsláttar …

Önnur svik núverandi ríkisstjórnar voru vegna stöðugleikasáttmálans sem gerður var í júní 2009, enda sá verkalýðshreyfingin sig knúna til að segja þeim sig frá þeim sáttmála …

Og nú síðast, í þriðja sinn, ætlar ríkisstjórnin að svíkja stóran hluta þess samkomulags sem gert var samhliða kjarasamningum 5. maí 2011, en í þeim svikum ræðst hún illilega á þá sem hvað lakast standa í íslensku samfélagi um þessar mundir, en það eru atvinnulausir, elli- og örorkulífeyrisþegar.“

Svo segir hér áfram í ályktuninni: (Gripið fram í.)

„Hver hefði trúað því að ríkisstjórn sem kennir sig við norræna velferð, félagshyggju, jöfnuð og réttlæti skyldi ráðast jafnillilega á kjör íslensks launafólks eins og núverandi stjórn hefur ítrekað gert frá því að hún komst til valda?

Það er ekki aðeins að þessi samkomulög hafi verið svikin, heldur hefur skjaldborgin gagnvart heimilunum einnig brugðist og í staðinn fyrir skjaldborg í kringum skuldsett heimili hefur verið slegin skjaldborg í kringum fjármálastofnanir og erlenda vogunarsjóði.“

Síðan segir í lokaorðum frá Alþýðusambandi Íslands að það telji að mikil gremja ríki í garð stjórnvalda vegna þessa:

„Það er ólíðandi að íslenskt launafólk skuli ekki geta treyst orðum oddvita ríkisstjórnarinnar.“

Að lokum vísa ég í ályktun aðalfundar stéttarfélags Bárunnar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Fundurinn minnir á að aftur og aftur hefur þessi ríkisstjórn, sem sótti umboð sitt til almennings, (Forseti hringir.) svikið loforð sín. Fundarmenn spyrja hvort ríkisstjórnin telji sig geta notið trausts í því ljósi.“ (Forseti hringir.)

Ég tek undir þessi orð 17 aðildarfélaga ASÍ, (Forseti hringir.) ríkisstjórninni ber að fara frá.