140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Birgi Ármannssyni, að það gæti verið heppilegt að efna til dýpri umræðu um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Ég átta mig ekki alveg á því undir hvaða lið það ætti að vera, þingsköpin hérna eru svo skrýtin, það er alltaf gert ráð fyrir tveggja mínútna ræðum, en ég held að það væri mjög heppilegt. Kannski gæti það orðið til þess að þeir sem eru andstæðir þessu ferli öllu þyrftu að hugsa betur um þetta og vanda mál sitt betur vegna þess að yfirleitt er allt sem frá þeim kemur í upphrópunum og helst einsatkvæðisorðum. Ég held að mjög heppilegt væri að reyna að eiga hér vitræna umræðu um það merka ferli sem er í gangi.

Ég tek einnig undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað um að heppilegt væri að endurskoða vörugjöld og virðisaukaskatta sem hafa verið við lýði í mörg ár. Varla verður blessaðri ríkisstjórninni, þeirri sem nú situr, kennt um það allt saman þó að margt sé á hana lagt. Í framhaldi af því sem fólk segir um þetta vil ég segja að nú erum við nýkomin úr þessari miklu rústabjörgun og mitt mat er að við verðum að passa okkur á að týna okkur ekki í því að fara að eyða og spenna og taka upp gömlu vinnubrögðin sem hér hafa tíðkast, að hugsa hlutina ekki til enda. Það skiptir meira máli að halda mittisólinni svolítið þröngri í nokkra mánuði í viðbót en að eyðileggja öll þau góðu verk sem hér hafa verið unnin síðan hrunið mikla varð haustið 2008.