140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra er lítillátur maður og kýs þess vegna í upptalningum síðustu 18 ára að gleyma um það bil sex árum sem hann sat í ríkisstjórn, þar á meðal þeim tveimur síðustu fyrir hrun. Ég ætla ekki að erfa það við hann enda held ég að punkturinn sem hann kom með sé í sjálfu sér út í bláinn. Hér varð hrun eins og við þekkjum haustið 2008. (Utanrrh.: Svokallað.) Það varð hrun, ég hef aldrei kallað það annað en hrun, efnahagshrun, bankahrun, haustið 2008. (Utanrrh.: Þið voruð líka fjölskipað …) Ef hæstv. utanríkisráðherra vill gefa mér tækifæri til að halda áfram get ég bent á að megnið af þeim 18 árum sem hann vísar til var mikið framfaraskeið í íslensku þjóðlífi. Ég hygg að hvorki ég né hæstv. utanríkisráðherra mundum vilja fara til baka til þess samfélags sem var hér fyrir 1990–1991. Ég hygg ekki.

Ég vona að stefna hæstv. ríkisstjórnar gangi ekki út á að færa okkur 30 ár aftur í tímann. Auðvitað eigum við að læra af mistökum sem áttu sér stað á síðustu árum, en að tala með þeim hætti sem hæstv. utanríkisráðherra gerir er ekki samboðið hans virðingu.

Nóg um það. Ég vona innilega að hæstv. utanríkisráðherra hafi rétt fyrir sér í því að við séum loksins að rétta úr kútnum. Ég vona að þær jákvæðu spár sem hann vísar til muni rætast. Ég vona að þau merki sem vissulega eru um að samdrættinum sé að mestu lokið séu rétt og varanleg, ekki tímabundin skammtímaáhrif. Ég vona það. Við skulum sjá hvernig gerist (Forseti hringir.) en ríkisstjórnin þarf hins vegar að gera meira. Hún þarf að spyrna (Forseti hringir.) í þannig að við komumst upp úr lægðinni, látum ekki nægja að hætta að síga niður heldur komumst upp. (Gripið fram í.)