140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég man þegar ég settist á þing fyrir tæpum þremur árum að þá töluðu menn í þessum sal mikið um Parísarklúbbinn, að við ættum hreinlega að segja okkur til sveitar, fram undan væri fólksflótti tugþúsunda og atvinnuleysið yrði mælt í tugum prósenta. Til allrar hamingju hafa þessar svartsýnisspár ekki ræst enda tók við völdum ríkisstjórn sem tók af festu á þeim verkefnum sem fram undan voru. Hér stöndum við, eins og komið hefur fram, í uppsveiflunni. Nú eru allar merkjanlegar hagtölur á réttri leið. Í þessum sal hefur verið rætt um að taka skattkerfið til endurskoðunar og koma frekar til móts við heimilin með skattalækkun. Grundvöllur alls þess er sú viðspyrna sem átt hefur sér stað á undanförnum árum og ekki síður má ítreka að verkinu er ekki lokið, enn þá er til staðar 20 milljarða halli á ríkissjóði. Við erum að fjármagna okkur með lántökum með tilheyrandi vaxtakostnaði og á því þurfum við að taka áður en við getum horft til þess að lækka hin opinberu gjöld.

Gætum líka að því að tekjur ríkissjóðs hafa lítið sem ekkert aukist að raungildi þrátt fyrir mikið tal um skattahækkanir á undanförnum árum. Skýringin er að sjálfsögðu sú að skattstofnar hafa minnkað mjög þannig að skatthlutföll hafa þurft að hækka til sækja sömu tekjur, enda eru skatttekjur hins opinbera nú mun lægra hlutfall af landsframleiðslu en þær voru til dæmis á góðærisskeiðinu 2003–2007.

Við stefnum að rekstrarafgangi ríkissjóðs árið 2014. Þessi ríkisstjórn mun standa að því verki heils hugar vegna þess að við teljum mjög mikilvægt að ná niður vaxtakostnaði til að koma til móts við heimilin, fyrirtækin, neytendur, til að skapa grundvöll fyrir lífskjarasókn.

Allar hagtölur benda í rétta átt og þess vegna er ánægjuefni að svartsýnisspár stjórnarandstæðinga rættust ekki vorið 2009.