140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

fullgilding Evrópuráðssamningsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun.

341. mál
[11:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er mjög „konservatívur“ í þessu máli og algjörlega sammála því viðhorfi sem kom fram hjá hv. þingmanni áðan. Ég tel að það eigi að setja ákveðin skilyrði ef við komumst að þeirri niðurstöðu að það þjóni þeim tilgangi sem við erum að leitast eftir að ná, þ.e. að vernda börn gegn ofbeldi af þessu tagi. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef stundum líka undrast það þegar menn hafa í umræðunni teflt fram mannréttindum með þeim hætti að mér hefur fundist þau skarast á við það sem ég tel að hljóti að vera ofar í þessu, þ.e. mannréttindi barnanna. Ég tel sjálfsagt að skoða allt slíkt, en í þessum samningi er reyndar að finna ákvæði sem taka nákvæmlega á þessu.

Nýmælin í samningnum eru mörg, þ.e. þarna er miklu ítarlegar farið yfir það með hvaða hætti á að taka á ferðaþjónustu sem beinlínis hefur þann tilgang að veita mönnum aðgang að börnum til að misnota þau. Við vitum að þetta er gríðarlegt vandamál í sumum löndum. Sum þeirra hafa tekið á því með lofsverðum hætti, en þá hefur starfsemin einungis færst til, ekki bara á milli landa, heldur á milli álfa.

Ég minnist þess til dæmis þegar ég kom fyrir nokkrum árum til Vestur-Afríku og átti þar tal við yfirmann barnaverndarmála í tilteknu landi. Hann tjáði mér að það versta sem við væri að glíma á þeim tíma væri sókn evrópskra karlmanna, dreggja Evrópu eins og ég kalla það, til þessa tiltekna lands beinlínis í þeim tilgangi. Vegna þess að í sumum löndum er ekki að finna lög sem banna það sem við erum að leitast við að útrýma er svo mikilvægt að refsilögsaga landa eins og okkar nái út yfir landamærin og nái yfir verknaði borgara okkar og íbúa okkar sem verða uppvísir að því að fremja glæp af þessu tagi í öðrum löndum.