140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

fullgilding Evrópuráðssamningsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun.

341. mál
[11:21]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna sérstaklega þeirri þingsályktunartillögu sem hér er fram komin og hæstv. utanríkisráðherra hefur mælt fyrir. Við fengum ábendingu frá UNICEF í nýlegri skýrslu um að Ísland hefði ekki innleitt fullgildingu Evrópusamningsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun. Það er rétt. Ég tel að meðferð þessarar þingsályktunartillögu í viðkomandi nefnd þurfi ekki að taka langan tíma. Málið er augljóst, liggur vel fyrir og er skilgreint þannig að ég tel að við eigum að geta afgreitt þingsályktunartillöguna á þessu þingi. Ég fagna því.

Á fundum Evrópuráðsins í Strassborg í síðustu viku var sérstakur fundur um Evrópusamninginn um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun og þær þjóðir sem ekki höfðu þá innleitt hann hvattar til að gera það hið allra fyrsta og ganga þannig frá að öll ákvæði samningsins yrðu innleidd.

Það kom sérstaklega fram á þeim fundi og var vísað til þess að þótt Ísland hefði ekki innleitt samninginn hefði Ísland tekið heillavænlegt skref um opnun og starfrækslu Barnahúss. Það var hvatt til þess að aðrar þjóðir færu að fordæmi okkar og opnuðu sérstakt barnahús þar sem sérfræðingar sæju um allar yfirheyrslur á börnum upp að 18 ára aldri og að börn og unglingar þyrftu ekki að fara inn í dómsali.

Ég vil sérstaklega minnast á þetta hér þar sem ég tel að við eigum að fylgja þessu sjálf eftir og sjá til þess að í framtíðinni verði öll börn og unglingar yfirheyrð í Barnahúsi. Það er ekki svo í dag, en ég hvet til þess að það verði. Það er litið til okkar hvað Barnahúsið varðar og þeirrar þjónustu sem Barnahúsið veitir. Ég tel mikilvægt að við horfum líka til þeirrar ábendingar að þangað fari öll börn undir 18 ára aldri.

UNICEF, deild Sameinuðu þjóðanna, sér um rannsóknir, vöktun og skýrslur sem snúa að börnum og ungmennum, velferð þeirra og stöðu í samfélagi þjóða og gaf út skýrsluna sem við höfum nýlega farið yfir. Grunnurinn að þeim sáttmálum sem gerðir eru er barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna og gerðir hafa verið við þann sáttmála viðbótarsáttmálar um barnasölu, -vændi og -klám.

Það er líka mikilvægt, og það kemur fram í þingsályktunartillögunni, að hver þjóð setji fram áætlun og verkferla um það hvernig eigi að innleiða og fylgja sáttmálanum eftir, kortleggja samskipti á milli allra aðila sem málið varðar, þ.e. opinberra aðila, hvort heldur eru sveitarstjórnir eða ríkisstofnanir, og frjálsra félagasamtaka og æskulýðsfélaga. Það á að kortleggja hvernig þau eiga að fara fram og hvernig á að fara með mál ef grunur leikur á að um misneytingu sé að ræða. Verkferlarnir þurfa að vera skýrir og það þarf að bregðast fljótt við. Eins hvað börnin varðar þurfa þau að vita nákvæmlega hvert þau geta leitað ef þau eru óróleg eða þeim líður illa og telja að eitthvað óeðlilegt sé í gangi þótt þau geri sér ekki fyllilega grein fyrir því hvað það er og hvað hinir fullorðnu eru þá að gera.

Það er rétt að við erum því miður orðin fórnarlamb eða hluti af hinni alþjóðlegu glæpastarfsemi. Hún hefur sett sig niður hér. Alþjóðleg glæpastarfsemi leitar í þá starfsemi sem gefur mestan arð á hverjum tíma. Þar hefur mansal verið æ ábatasamara og vændi, ekki hvað síst barnavændi. Þessi starfsemi fer yfir landamæri og það hefur fólk annars staðar á Norðurlöndunum orðið vart við. Það er orðið upplýst að barnasala og mansal á börnum hefur átt sér stað á Norðurlöndunum.

Enn þá vitum við ekki til þess að það hafi orðið hér á landi en það er með það eins og annað að ekki eru mörg ár síðan því var harðlega neitað að alþjóðleg glæpastarfsemi gæti átt sér stað hér á landi, að vændi væri stundað hér á landi, að mansal gæti átt sér stað hér á landi, en allt er það því miður rétt og satt. Við verðum þar af leiðandi að horfa alveg blákalt á það að misneyting á börnum, mansal, á milli landa getur átt sér stað hér á landi eins og annars staðar.

Kynferðisleg misnotkun á börnum hefur því miður verið hér á landi eins og annars staðar. Hvort hún er meiri núna eða minni eftir að kynferðisleg misnotkun varð ljósari með notkun netsins, birtingarmynd hennar, og getur hugsanlega leitt til þess að fleiri ástundi eða ánetjist barnamisnotkun þori ég ekki að segja um. Eitt er víst; við sem þjóð erum að minnsta kosti betur vakandi fyrir því að þetta er raunin hér á landi. Við verðum að bregðast við einum alvarlegasta glæp sem framinn er, þ.e. misneytingu á börnum.

Varðandi refsingar er mikilvægt að þær nái einnig yfir landamæri. Þannig brást Noregur við þegar þaðan voru skipulagðar ferðir, þ.e. mig minnir að þær hafi verið frá Noregi frekar en Svíþjóð, ég þori samt ekki að fara með það, til Taílands þar sem ferðalangar nýttu sér sölu á börnum og barnavændi. Því var þessi misnotkun gerð refsiverð í Noregi þó að hún ætti sér ekki stað þar. Ef fólk varð upplýst að misneytingu var það refsivert þótt hún hefði átt sér stað erlendis. Þannig tel ég að það verði að vera því að þessi starfsemi er óháð landamærum.

Því fagna ég þessari þingsályktunartillögu og trúi því að í næstu skýrslu Sameinuðu þjóðanna fyrir UNICEF verði þess getið að Ísland hafi innleitt þennan sáttmála um fullgildingu Evrópuráðssamningsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun sem er viðbót við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.