140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

fullgilding Evrópuráðssamningsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun.

341. mál
[11:35]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þetta. Við erum að draga það fram hvað það er mikilvægt að refsa brotamönnum þvert á landamæri. Þetta dregur fram hvað það er rosalega mikilvægt fyrir öll lönd að vera með öflugt samstarf sín á milli. Það er mjög snjallt að geta horft fram hjá því hvar brotið er framið en refsa samkvæmt ákvæðum sem gilda í því landi þaðan sem viðkomandi kemur. Það er mjög sérstakt að gera þetta svona og mjög gott.

Ég vil af þessu tilefni draga fram hvað þetta samstarf er mikilvægt. Hv. þm. Þuríður Backman minntist hér á skipulagða glæpastarfsemi, þessi kynferðislega misnotkun á börnum er angi af því fyrirbæri. Stundum er þetta verulega skipulagt og hálfgerður túrismi, eins og hv. þingmaður dró fram, en það leiðir okkur að öðru máli sem er annars konar skipulögð glæpasamtök sem því miður hafa verið að festa rætur á Íslandi eins og við fengum að vita frá Europol nýlega. Við vissum það svo sem, það er búið að vara okkur við þessu í nokkur ár. Það hefur ríkislögreglustjóraembættið gert. Það er gríðarlega mikilvægt að vera í mjög öflugu samstarfi við önnur ríki vegna þeirrar brotastarfsemi sem þessi samtök eru aðilar að. Þess vegna er svo mikilvægt að við gerum svipað og önnur ríki, heimilum íslensku lögreglunni að stunda forvirka rannsóknarvinnu ef á þarf að halda. Það er gert alls staðar á Norðurlöndunum. Ég held að það sé gert í öllum Evrópuríkjunum nema á Íslandi. Það er fáránlegt.

Þessu verðum við að breyta. Það er mál um það frá mér í allsherjar- og menntamálanefnd og frekar góð stemning fyrir því þannig að ég á von á að við afgreiðum það líka á þessu þingi.