140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

málefni safna, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[11:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ástæða þess að ég hef óskað eftir því að fá að veita Alþingi þessa munnlegu skýrslu eru almennar aðstæður safna í samfélaginu en ekki síður skýrsla sem Ríkisendurskoðun birti um miðjan janúar á vef sínum um málefni Náttúruminjasafns Íslands. Því þakka ég fyrir það tækifæri að fá aðeins að ræða þessi málefni hér í víðu samhengi. Ég held að það sé full ástæða fyrir Alþingi til að fara aðeins yfir stöðu þessara menningarstofnana í samfélaginu.

Eins og kunnugt er hafa ríkisútgjöld verið skorin verulega niður undanfarin fjögur ár, þ.e. allt frá efnahagshruni. Við undirbúning fjárlaga síðustu ára hefur verið farið ítarlega yfir alla fjárlagaliði, bæði á sviði mennta- og menningarmála í því ráðuneyti. Hvað menningarstofnanir varðar hefur ráðuneytið meðal annars fylgt þeirri stefnu að forðast eftir því sem kostur væri uppsagnir, varðveita sem best mannauðinn sem íslenskt menningarlíf byggir á og fremur fresta nýjum verkefnum eða þeim sem voru skammt á veg komin en að veikja mikilvæga starfsemi sem er fyrir og yrði dýrt að byggja upp aftur.

Bara til upprifjunar minni ég á að ýmsar hugmyndir komu upp um niðurskurð og samdrátt, m.a. var þeirri tillögu hreyft í fullri alvöru að loka mætti ýmsum menningarstofnunum um þriggja ára skeið. Var lokun Þjóðleikhússins nefnd í því sambandi sem dæmi um fórn sem gæti þurft að færa en slíkum tillögum var alfarið hafnað af hálfu ráðuneytisins.

Hins vegar er ljóst að framlög til ýmissa menningar- og listastofnana hafa verið skorin verulega niður. Þau hafa verið skorin niður á árunum 2010–2012, þ.e. frá fjárlögum sem lögð voru fram 2009, um 1,2 milljarða. Þetta eru auðvitað verulegar fjárhæðir. Ég nefni sem dæmi að framlög ríkisins til Þjóðminjasafns Íslands sem voru 508,5 milljónir samkvæmt ríkisreikningi ársins 2008 eru núna 381,7 millj. kr. í fjárlögum 2012. Þau hafa sem sagt verið skorin niður um 25%. Framlög til Húsafriðunarsjóðs hafa lækkað verulega líka, úr 219,7 milljónum í 94,3 milljónir í fjárlögum.

Ýmis framlög til safna sem ekki eru í eigu ríkisins svo dæmi sé tekið hafa lækkað gríðarlega í fjárlögum. Framlög til Þjóðmenningarhúss hafa lækkað um 24% frá ríkisreikningi 2008 til fjárlaga 2012. Framlög til Þjóðskjalasafns hafa lækkað um 13% á sama tíma og það safn hefur þurft að taka á sig aukin verkefni. Það má svo sannarlega segja að menningarstofnanir hafi þurft að bera sinn skerf í þessum málum á sama tíma og vísitala neysluverðs hefur hækkað umtalsvert. Það er ljóst að mjög þröngur stakkur er sniðinn þeim söfnum sem hér starfa og hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna í varðveislu menningararfsins okkar.

Ég nefni líka að á sama tíma hafa söfnin haldið uppi mjög öflugri starfsemi sem og auðvitað aðrar menningarstofnanir. Þetta hefur gerst án þess að það hafi verið rætt sérstaklega eða þakkað fyrir. Ég held að það sé ástæða til þess að hrósa starfsfólki íslenskra safna og menningarstofnana fyrir sín góðu störf við mjög erfiðar aðstæður þar sem sýningahald hefur verið fjölbreytt og bryddað hefur verið upp á ýmsum nýjungum. Það sem er athyglisvert líka er að aðsókn almennings og ferðamanna hefur aldrei verið meiri en síðustu ár. Ég nefni sem dæmi að samkvæmt fréttatilkynningu Hagstofu Íslands 22. desember sl. var áætlaður fjöldi gesta hjá söfnum og tengdri starfsemi á árinu 2010 1,6 milljónir. Það lætur nærri að fjöldi safngesta hafi tvöfaldast frá árinu 1995. Aðsókn að söfnum virðist hafa aukist sérstaklega frá árinu 2008 þannig að kannski er það þrátt fyrir þrengingar eða einmitt vegna þeirra sem fólk leitar í menninguna. Við sjáum sambærilega þróun hjá öðrum menningarstofnunum, Þjóðleikhúsinu, Sinfóníuhljómsveitinni og svo mætti lengi telja.

Það er að mínu viti komið að þolmörkum hjá söfnum landsins og á sama tíma má segja að ekki hafi verið nægilega vel sinnt ýmsum þeim verkefnum sem við viljum að söfnin sinni og ættu að sinna á þessum tíma. Ég nefni sérstaklega stafræna varðveislu sem hefur sums staðar verið slegið á frest. Ég nefni viðhald bygginga, endurbætur á geymslum, endurbætur á öryggiskerfum og ýmislegt fleira sem má segja að hafi verið slegið á frest til að fólk gæti einbeitt sér að hinni daglegu kjarnastarfsemi.

Mig langar síðan að nefna sérstaklega starfsemi Náttúruminjasafnsins. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er aðeins lítillega vikið að þeim kringumstæðum sem hafa verið í efnahagslífinu sem að sjálfsögðu hafa haft mjög mikil áhrif á starfsemi Náttúruminjasafnsins. Það var tekin sú ákvörðun að rétt væri að fresta öllum áformum um byggingu nýs safns í ljósi þeirra aðstæðna sem voru uppi í ríkisfjármálum og þurfti að slá þar mörgum öðrum byggingum á frest. Annað dæmi er hús íslenskra fræða sem nú er fullhannað en ekki er enn farið af stað að byggja.

Þetta skiptir máli þegar við lesum skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það er ekki hægt að bera saman fjárveitingarnar til Þjóðminjasafns og Listasafns sem hafa lengi verið starfandi og eru „etableraðar“ stofnanir og svo Náttúruminjasafnsins. Hins vegar bendir Ríkisendurskoðun réttilega á að þarna er um að ræða þrjú höfuðsöfn samkvæmt lögum og gerir athugasemd við það að ekki sé nægilega vel búið að þessu þriðja safni.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er líka fjallað um ýmsa aðra hluti, það er rætt um löggjöf um náttúruminjasafn þar sem er gagnrýnt að hún hafi ekki verið nægilega vel undirbúin á sínum tíma, að samhliða henni hefði átt að leggja fyrir ákveðna stefnumótun um starfsemi safnsins og tímasetta áætlun um uppbyggingu þess og rekstur. Ég nefni það að eftir því sem ég hef kynnt mér málið voru ýmsar hugmyndir um þessi atriði viðraðar áður en lögin voru samþykkt og viðræður áttu sér stað við þá sem málið varðaði. Niðurstaða þeirrar vinnu varð að fyrst ætti að skapa fyrirhuguðu safni ramma með löggjöf og síðan að móta stefnu fyrir starfsemi þess á þeim grunni og sú stefnumótun yrði unnin undir forustu safnsins. Sú niðurstaða byggði meðal annars á því að það ætti að leita víðtæks samráðs um málið fremur en knýja fram fyrir fram ákveðna niðurstöðu.

Það urðu miklar umræður um málið á Alþingi á sínum tíma. Breytingar á því urðu í meðförum þingsins, en hins vegar voru frumvörpin samþykkt mótatkvæðalaust í mars 2007. Þess vegna fannst mér ástæða til að ræða við þingið, því að löggjöfin er gagnrýnd, um hvert mat manna er á því hvernig tekist hafi til með löggjöfina og hvort fólk hafi eitthvað skipt um skoðun í ljósi sögunnar. Ljóst er að þetta var samþykkt hér samhljóða og þar af leiðandi lít ég svo á að þingið hafi farið mjög ítarlega yfir málið og veitt því brautargengi.

Ríkisendurskoðun nefnir líka seinagang við að ljúka stefnumótun um safnið. Hún hefur verið í ferli milli ráðuneytisins og safnsins. Þar hefur ekki náðst einhugur þannig að ég lít svo á að það sé sameiginlega á okkar ábyrgð að ljúka þessari stefnumótun.

Framtíðarsýn þeirrar sem hér stendur hefur verið sú að við eigum byggja upp þetta náttúruminjasafn, að það sé mikilvægt að halda fast í þá sýn sem auðvitað hefur lengi verið til staðar og má segja að hafi verið staðfest með lögunum um höfuðsöfn. Mér finnst hins vegar eðlilegt að Alþingi taki þátt í umræðu um hvert það vilji stefna og hvort ástæða sé til þess að breyta einhverju í því fyrirkomulagi sem við höfum í löggjöfinni. Sumir hafa þá hugmynd að það ætti að bakka því að á sínum tíma var Náttúrufræðistofnun auðvitað með sýningarhlutverk og hélt úti náttúrugripasafni uppi á Hlemmi. Ég hef ekki tekið undir þau sjónarmið hingað til að það ætti að snúa til baka í það. Aðrir hafa nefnt aðrar leiðir um sameiningar safna, en ég held að það sé mikilvægt að við sem sitjum á Alþingi áttum okkur á því hvert við ætlum með náttúruminjasafn.

Það sem mér finnst hvað mikilvægast í niðurstöðu Ríkisendurskoðunar er að þar kemur fram að ástæða sé til að staldra við og segja: Bíddu nú við, hvert ætlum við með þetta safn? Ég hef mínar skoðanir á því sem mér finnst Ríkisendurskoðun kannski ekki taka nægilegt tillit til og þær varða hinar efnahagslegu kringumstæður eins og ég fór yfir áðan. Ég held að það sé réttmætt að við tökum þá umræðu hér og ég vildi opna hana svona. Ég veit hins vegar að það liggur fyrir beiðni um að ræða málefni Náttúruminjasafnsins sérstaklega og ég reikna með að við gerum það á næstunni.

Ég velti líka upp þeirri spurningu hvert fólk vill stefna með byggingu húss fyrir náttúruminjasafn, hvort fólk sjái einhverjar aðrar leiðir í þeim efnum, hvort fólk vilji hugsanlega nýta þá starfsemi sem fyrir er til að hýsa starfsemi náttúruminjasafns og enn fremur hvernig fólk sjái þetta safn verða á 21. öldinni.

Ég tek fram að stundum hefur verið rætt um hvort ekki sé hægt að skella upp einhverju náttúruminjasafni, nokkrum glerkössum með nokkrum náttúruminjum. Safn á 21. öld er auðvitað miklu meira en það. Það skiptir miklu máli að það sé aðgengilegt, bæði í raunheimum og á netinu, að það nýtist sem best skólafólki og ferðamönnum. Þetta er líka mikilvægt fyrir þá ferðamenn sem hingað koma. Stærstur hluti þeirra kemur hingað út af náttúrunni og það er eðlilegt að þeir spyrji: Er ekkert höfuðsafn á sviði náttúruminja opið?

Safnið er núna í Loftskeytastöðinni við Suðurgötu þar sem er lítil sýning. Það er bráðabirgðaráðstöfun og hún er það viljandi. Sú leiga er til fimm ára af því að hugsun mín á bak við það var að það væri mjög mikilvægt að á þeim tíma kæmumst við á þann stað að við vissum nákvæmlega hvað við ætluðum að gera. Þetta er ekki ein af þeim bráðabirgðaráðstöfunum sem á að endast áratugum saman.

Ég velti þeirri hugmynd upp hér í lokin hvort ekki væri rétt að mennta- og menningarmálaráðuneytið efndi til samráðs við hóp þingmanna, hugsanlega úr hv. allsherjar- og menntamálanefnd, um hvernig fólk metur skýrslu og niðurstöðu Ríkisendurskoðunar. Ég veit að við eigum eftir að eiga sérstaka umræðu hér í salnum um hana en ég held að það væri ástæða til að við settum eitthvert slíkt samráðsferli í gang.

Að þessu sögðu vil ég bara fyrst og fremst ítreka að ég tel að við þurfum líka að hafa í huga við gerð fjárlaga á þessu ári þau þrengsli sem söfnin eru komin í. Ég nefndi áðan tölur um Þjóðminjasafn, Þjóðskjalasafn, Þjóðmenningarhús og síðan ýmis sjálfstæð söfn um landið allt sem hafa notið framlaga úr annars vegar safnasjóði og hins vegar af fjárlögum. Ég held að það sé alveg ljóst að þarna er komið að þolmörkum. Þetta þarf að hafa í huga við gerð næstu fjárlaga.