140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

málefni safna, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[11:50]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála fyrir þessa ágætu og fróðlegu yfirferð yfir stöðu safnanna. Auðvitað tæpti hæstv. ráðherra í lokin á skýrslu Ríkisendurskoðunar um Náttúruminjasafnið. Ég held að hæstv. ráðherra hafi nálgast það mjög skynsamlega. Það er engin ástæða til annars en að fara mjög vandlega yfir þá niðurstöðu og setja í gang samráðsferli af því tagi sem nefnt var hér áðan. Það er langbesta leiðin til að draga lærdóm af úttekt Ríkisendurskoðunar á þessu náttúruminjasafni sem við þurfum svo sannarlega að taka höndum saman um að koma til betri vegar. Staðan er bara eins og hún er og það liggur fyrir úttekt á þeim bakgrunni. Það skynsamlegasta sem við getum gert er að taka það saman í góðri samvinnu þingnefndar og ráðuneytis og vinna út frá því og skila af okkur fyrir haustið þannig að það komi til viðmiðunar inn í fjárlagagerðina sem fer þá á sinn hefðbundna endasprett þegar hæstv. fjármálaráðherra mun væntanlega mæla fyrir því um miðjan september, samkvæmt nýju reglunum. Ég fagna þessari afstöðu ráðherrans innilega, ég tel að hún hafi tekið mjög vel á þessu máli og leggi hér upp mjög skynsamlegan farveg. Eins og nefnt var verður þetta rætt sérstaklega hérna síðar.

Það er kærkomið að ræða hér aðeins um söfnin sem verðskulda sannarlega sérstaka umræðu í þinginu. Söfnin, sá mannauður og sú mikla menning sem þar er haldið utan um og sú mikla saga verðskuldar að það sé gætt alveg sérstaklega að því núna þegar allt er til endurskoðunar. Þeir fjármunir sem hefur verið varið af hinu opinbera, mjög oft í gegnum fjárlaganefnd af safnliðum, til stofnstyrkja til hinna smærri safna eru fjárfestingar sem hefur verið afskaplega vel varið. Þau söfn sem Alþingi og menntamálaráðuneyti hafa stutt við bakið á og uppbyggingu á síðustu árum blómstra hringinn í kringum Ísland. Er hægt að nefna svo mörg dæmi af þessum smærri staðbundnu söfnum, eins og ég segi, fyrir utan stóru söfnin á höfuðborgarsvæðinu. Það má nefna söfn sem er mikill sómi að og er þar ekki bara tekið utan um söguna og menninguna, Íslandssöguna alla frá landnámi, heldur er þetta jafnframt og um leið grundvöllur ferðaþjónustunnar.

Grundvöllur þess að ferðaþjónustan blómstri og dafni hringinn í kringum Ísland er öflugt safnastarf, aðgengi að öflugri menningarferðaþjónustu sem kemur sterkast saman í söfnunum. Við þekkjum það að þetta er meira og minna byggt af hugsjónafólki úti um allt land sem fer af stað í þetta af miklu kappi. Það hefur sem betur fer oft fengið stuðning frá ríkisvaldinu í gegnum ráðuneyti og fjárlaganefnd til að koma hugsjónum sínum í framkvæmd og verk þannig að upp hafa risið söfn eins og við sjáum á Skógum, Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit, sem er alveg einstakt safn þar sem einstaklingar tóku sig til og reistu safn utan um verk eins merkasta rithöfundar okkar samtíma, Þórbergs Þórðarsonar, og starfrækja jafnframt því ferðaþjónustu, matsölu og gistingu. Það er meiri háttar starfsemi byggð upp af mikilli hugsjón fyrir því að koma upp safni utan um verk þessa mikla rithöfundar. Sem betur fer hefur Alþingi staðið ágætlega á bak við þessa uppbyggingu. Svona mætti nefna mörg önnur söfn, Vatnasafnið í Stykkishólmi, Jöklasafnið á Hornafirði, listasöfnin staðbundnu sem mörg hver eru mjög öflug eins og Listasafn Árnesinga í Hveragerði. Svona mætti lengi telja.

Með sama hætti hefur verið tekið utan um Íslendingasögurnar, samanber Njálusetrið á Hvolsvelli. Öll er þessi starfsemi afskaplega vel heppnuð og hefur skipt miklu máli fyrir menningar- og atvinnulíf á tilteknum svæðum. Eins og ég segi mun sú atvinnugrein sem er nú á hvað mestu flugi á Íslandi, ferðaþjónustan, ekki gera annað en að vaxa og dafna á næstu árum og þá skiptir þessi öfluga safnastarfsemi úti um allt Ísland meginmáli.

Það er mikilvægt að halda þessu til haga núna þegar við ræðum stöðu safnamála. Við skulum ekki bara tala um stóru höfuðsöfnin, jafnmikilvæg og vel heppnuð og þau eru. Þjóðminjasafninu er mjög vel fyrir komið og er mikill sómi að því hvernig staðið var að því að koma því fyrir eins og nú háttar um. Ég held að almennt hafi á síðustu árum verið staðið vel á bak við safnamálin á Íslandi þó að auðvitað megi alltaf eitthvað betur fara, eins og kemur í ljós með Náttúruminjasafnið. Það er löng saga á bak við það og við skulum draga hana saman í einn brennipunkt og ákveða að stíga skref til að bæta úr því.

Við eigum að halda áfram. Ég hef velt því fyrir mér núna þegar fjárlaganefnd hefur breytt verkferlum sínum með safnliðina sem eru vistaðir í svæðasamböndunum og ráðuneytunum. Við fáum fljótlega stöðumat á því hvernig til hefur tekist. Stofnstyrkirnir til þriggja ára út úr fjárlaganefnd á safnliðunum eins og hefðin var um söfnin hafa legið því til grundvallar að mörg þeirra safna sem ég nefndi áðan og tugir annarra um allt Ísland hafa orðið til. Það veit hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, sem mun tala hérna á eftir mér, sem nauðaþekkir þessa sómasögu íslenskra safna. Við þurfum að gæta okkar á því í breyttu fyrirkomulagi að ekkert verði gefið eftir í því að styðja við bæði stofnun safnanna og starfsemi þeirra áfram í mörgum tilfellum þegar það á við.