140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

málefni safna, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[12:16]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því eins og fleiri að þakka hæstv. menntamálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur fyrir að flytja okkur þessa skýrslu og gefa okkur tækifæri til að fara vítt og breitt yfir sviðið án þess að festast í mjög þröngri og afmarkaðri umræðu. Við höfum hér sem umræðugrunn skýrslu Ríkisendurskoðunar um Náttúruminjasafn Íslands sem kom út 2012 og ætlum að ræða sérstaklega síðar.

Það er margt sem væri hægt að fara yfir núna því að svo margt hefur breyst á undanförnum árum, þ.e. allt frá því í hruninu haustið 2008 þegar við töldum að við værum komin nokkuð á leið með að móta stefnu Náttúruminjasafnsins og þá yrði stutt í að hægt yrði að hefja byggingu á nýju safni. Eins og hér hefur komið fram, og er alveg ljóst öllum þeim sem vilja vita, hefur stefnumótunin strandað. Það er mikill og djúpstæður ágreiningur um það hvernig eigi að skipta á milli eða hvort skipta eigi á milli Náttúrufræðistofnunar og Náttúruminjasafnsins. Því á hæstv. ráðherra fulla samúð mína hvað varðar þá vinnu sem hún hefur trúlega vonað, eins og við öll, að yrði lokið á þessum tíma. Með svona djúpan ágreining er ekki von að niðurstaða hafi fengist í málið.

Þar sem við vitum af þessum ágreiningi býð ég mig fram í verkið og fleiri hafa lýst sig tilbúna að taka þátt í þeirri vinnu sem við þurfum hreinlega að fara í á Alþingi. Alþingi tók að sér stefnumótunina hvað varðar höfuðsöfnin þrjú með lagasetningu og ég tel að við þurfum öll að standa saman, hvort sem það er menntamálaráðherra eða Alþingi, um að höggva á þennan hnút þannig að við getum haldið áfram.

Ég styð það að lögin verði óbreytt, að við höfum þessi þrjú höfuðsöfn. Ég styð það líka að þau verði áfram í höfuðborginni, að hún standi þá undir nafni og þeirri ábyrgð sem henni ber sem höfuðborg. Ég var líka algerlega sammála því að þar sem ekki var hafin bygging á náttúruminjasafni í hruninu 2008 yrði byggingarframkvæmdum frestað og reynt að hlífa söfnum um allt land eins og hægt væri. Af skiljanlegum ástæðum, af því að þetta voru ekki velferðarmál (Forseti hringir.) eða verkefni sem ekki gátu aðeins beðið, (Forseti hringir.) fengu þær að bíða en það er komið að sársaukamörkum og við verðum að horfa mjög alvarlega til safnanna á næstu fjárlögum.