140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

málefni safna, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[12:20]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram og vil í upphafi láta þess getið að ég er því hlynnt að hér séu þrjú höfuðsöfn, Þjóðminjasafnið, Listasafn Íslands og síðan Náttúruminjasafnið. Við getum svo velt því fyrir okkur hvar húsakostur náttúruminjasafns eigi að vera, hvort reisa eigi nýtt safn á sama stað og Náttúrufræðistofnun er og samnýta með einhverjum hætti. Það er annar handleggur, en Náttúruminjasafnið er og á að vera eitt af höfuðsöfnum þjóðarinnar.

Við þurfum líka að velta fyrir okkur jafnt með Náttúruminjasafnið sem önnur söfn hvernig við ætlum að færa þau til nútímans, eins og hæstv. ráðherra lét getið í ræðu sinni, með aðgengi fyrir alla að söfnum á ólíkan hátt. Ég bendi á að í allsherjar- og menntamálanefnd er þingsályktunartillaga um varðveislu menningarverðmæta á stafrænu formi. Það er einn þáttur sem þarf að skoða þegar við ræðum málefni safna og með hvaða hætti við ætlum að hafa aðgengi að menningarverðmætum okkar, hver svo sem þau kunna að vera hverju sinni.

Við höfum líka rætt það að málefni safna ná til fleiri þátta en höfuðsafnanna þriggja og ég get tekið undir að húsnæði skiptir ætíð máli, m.a. safnahúsið sjálft. Þegar rædd eru málefni safna og þá höfuðsafnanna þriggja þurfum við ekki síður að huga að geymsluhúsnæði því að það er kristaltært að öll þau verðmæti sem við eigum geta aldrei verið öll til sýnis í einu. Þess vegna þarf ekki síður að vanda val á og eiga gott geymsluhúsnæði fyrir öll þessi söfn. Þar held ég að við þurfum að betrumbæta.

Hér hefur verið rætt um söfn vítt og breitt um landið sem að sjálfsögðu eru dýrmæt þeim stöðum sem þau eru á. Ég get nefnt að í mínu sveitarfélagi er safn sem ber heitið Hús skáldsins, Gljúfrasteinn. Þar er virk sýning á húsnæði skáldsins og þeim munum sem hann átti. Hún er á nokkrum tungumálum. Þar er húsnæðið nýtt til tónleika enda skáldið sjálft hlynnt tónlistinni og hafði yndi af og áhuga á henni. Að mörgu er að hyggja, en þrjú höfuðsöfn eigum við að leggja áherslu á (Forseti hringir.) eins og gert er í lögum.