140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

málefni safna, munnleg skýrsla mennta- og menningarmálaráðherra.

[12:23]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þetta er svo stórt mál að maður vill nýta hverja mínútu sem maður fær. Mig langaði aðeins að bæta við fyrri ræðu í sambandi við það hvað er til úrbóta núna.

Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að menntamálaráðuneytið hefur verið með ákveðna stefnumörkun fyrir Náttúruminjasafnið, samþykkti hana 21. janúar 2010. Þá átti að ljúka stefnu safnsins fyrir næstu ár. Fyrsti punkturinn er að finna húsnæði sem hentar starfsemi safnsins næstu árin. Það er ekki búið að því. Það húsnæði sem núna er til staðar hentar alls ekki þessu safni. Það er svo lítið, það er í Loftskeytastöðinni rétt við Háskólabíó, pínulítil aðstaða. Ég hef skoðað hana, þetta er ekki neitt sem heitið getur. Það er ekki hægt að bjóða upp á neinar sýningar þarna þannig að það verður að taka á þessu.

Það verður að taka á mörgu öðru líka, m.a. húsnæðismálunum. Við höfum því miður ekki sett þau í nógu mikinn forgang. Ég ætla ekki að bera saman söfn en Hönnunarsafn Íslands er í betra húsnæði en Náttúruminjasafn Íslands. Ég er ekkert að öfundast út í það húsnæði sem Hönnunarsafn Íslands er í en það er tiltölulega nýtt safn og það er komið í betra húsnæði. Það sýnir bara að Náttúruminjasafn Íslands hefur verið algert olnbogabarn og ekki verið forgangsraðað með hagsmuni þess í huga.

Ég hef stundum verið með fyrirspurnir til hæstv. menntamálaráðherra um Þjóðmenningarhúsið, hvort hægt væri að nýta það tímabundið. Ég held að við verðum að finna einhverja millilausn. Ég efast um að byggt verði nýtt hús á allra næstum árum, því miður. Vegna bankahrunsins er ég ekki viss um að það verði gert þannig að það verður að finna einhverja millilausn sem hentar safninu á næstu árum.

Síðan varðandi innihald safnsins kemur mjög sterkt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar sú togstreita sem hefur verið milli Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruminjasafnsins. Á bls. 12 er henni mjög vel lýst af því að þar er vitnað í álit forstjóra Náttúrufræðistofnunar á frumvarpi til safnalaga frá 31. janúar 2001. Þar er dregið fram að ef sú safnastarfsemi sem Náttúrufræðistofnun Íslands hafði verður aðskilin frá stofnuninni verður lítið eftir af Náttúrufræðistofnun Íslands og vafasamt hvort grunnur sé fyrir áframhaldandi rekstri hennar. Heyr á endemi. Þó að Náttúrufræðistofnun Íslands sé ekki í einhverri sérstakri safnastarfsemi gegnir hún allt öðru hlutverki. Hún er rannsóknastofnun. Hún er ekki safnastofnun í eðli sínu. Mér finnst þessi togstreita svo ótrúleg að við hljótum að geta höggvið á þennan hnút. Við verðum að gera það. Reyndar er bráðabirgðaákvæði með lögunum sem sýnir að Náttúruminjasafnið á að fá ákveðna muni sem (Forseti hringir.) Náttúrufræðistofnun Íslands hefur ekki veitt aðgang að, eins og ég skil það.