140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

norræna hollustumerkið Skráargatið.

22. mál
[12:40]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um norræna hollustumerkið Skráargatið. Það mál er sem sagt komið út úr nefnd og stefnir í að það verði samþykkt á allra næstu dögum; og ég vil fagna því alveg sérstaklega.

Ég vil líka geta þess, af því að ég tala strax í kjölfarið á hv. þm. Þór Saari, að sá þingmaður var valinn talsmaður fyrir þetta mál. Það er alveg nýtt fyrirbæri hér í þinginu og enginn veit alveg hvernig þetta nýja kerfi okkar með talsmenn fyrir ákveðin mál, þar sem þingmenn taka mál í fóstur í nefndum sínum, virkar. Þó að þingmenn séu ekki endilega flutningsmenn máls eða meðflutningsmenn, eða komi að því á nokkurn hátt, taka þeir það samt í hálfgert fóstur og gerast talsmenn fyrir það í nefndinni. Þeir fylgja því þá eftir að málið sé skoðað og ýta á að nefndirnar geri upp við sig hvort þær vilji samþykkja það eða ekki. Ég er reyndar, vegna reynslu minnar af þessu máli, mjög bjartsýn á þetta kerfi og vil nota tækifærið og þakka sérstaklega hv. þm. Þór Saari fyrir framúrskarandi vinnu við að halda utan um málið.

Hv. þingmaður hefur kynnt sér málið í þaula, lagt til umsagnaraðila ásamt fleiri þingmönnum og séð um að þeir hafi mætt fyrir nefndina. Hann hefur skoðað málið með ráðuneytinu og lagt sig fram um að finna lausnir á því. Mér finnst það einstaklega heppilegt hvernig staðið hefur verið að þessu máli af hendi hv. þm. Þórs Saari og vil þakka sérstaklega fyrir það góða verk sem hann hefur unnið. Hann hefur haldið sköruglega utan um málið. Ég held að meðal annars vegna hans einbeitta vilja sé málið komið hingað inn í þingið, fyrir utan það að málið er mjög gott. Ég er 1. flutningsmaður og tel að þetta sé gríðarlega mikilvægt mál varðandi hollustuhætti hér á Íslandi til framtíðar.

Fyrst maður er farinn að þakka fólki er kannski líka við hæfi að þakka meðflutningsmönnum, sem eru hv. þingmenn Þuríður Backman, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Mörður Árnason. Það eru sem sagt fulltrúar úr öllum flokkum á þessari þingsályktunartillögu, þau hafa öll skipt sér af þessu máli og hjálpað til við að ýta því áfram. Ég vil líka nefna sérstaklega þrjá aðra aðila. Ég nefni Brynhildi Pétursdóttur hjá Neytendasamtökunum, sem hefur verið ötull talsmaður fyrir þetta mál. Neytendasamtökin hafa beitt sér í mjög mörgum mikilvægum lýðheilsumálum og þar á meðal þessu. Ég vil líka nefna Gísla Tryggvason, talsmanna neytenda, sem hefur ásamt umboðsmanni barna látið sig þessi mál skipta, ég vil þakka þeim báðum. Ég vil að auki nefna hlut Tryggva Felixsonar, sem vinnur hjá norrænu ráðherranefndinni, en hann hefur verið ötull við að koma gögnum til 1. flutningsmanns og benda á þetta mál. Ég vil þakka þessum aðilum og líka draga það fram að málið er að vissu leyti afrakstur norræns samstarfs.

Stundum spyr fólk: Norrænt samstarf, hvað kemur út úr því? Það kemur alveg gríðarlega mikið út úr því, miklu meira en fólk heldur. Þetta mál er slíkt, það rekur á fjörur 1. flutningsmanns í gegnum norrænt samstarf og er ekki fyrsta málið sem verður afgreitt hér frá íslenskum stjórnvöldum er varðar lýðheilsumál og norrænt samstarf. Ég vil minna á aðra tillögu sem sú er hér stendur flutti á sínum tíma um transfitusýrur. Þegar við ákváðum að skoða þau mál rak það á okkar fjörur í gegnum norrænt samstarf. Það var tekið upp í Norðurlandaráði og þar voru upplýsingar lagðar á borðið. Það var bara Danmörk sem hafði klárað það mál, Danmörk var fyrsta landið í heiminum til að setja mörk á hlutfall transfitusýra í mat, transfitusýrur máttu ekki vera meira en 2% af innihaldi vöru, og Ísland var svo annað landið. Það er búið að afgreiða það hér og frá því í ágúst síðastliðnum getum við verið nokkuð örugg um að hér eru ekki vörur á markaði sem innihalda mikið af transfitusýrum, og það er líka afrakstur norræns samstarfs. Það er hægt að nefna fleiri slík góð mál sem eru afrakstur norræns samstarfs.

Yfir í Skráargatið. Þetta mál er flutt í annað sinn. Það var flutt fyrst á 139. löggjafarþingi þannig að flutningsmenn hafa nú barist fyrir þessu um nokkurn tíma. Málið gengur út á það í heildina að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið sem felur það í sér að settur verður upp rammi eins og talsmaður málsins, hv. þm. Þór Saari, lýsti hér áðan. Settur verður upp ákveðinn rammi og fyrirtæki geta fengið Skráargatið á vörur sínar ef þær eru hollar, ef þær standast ákveðin viðmið, í þeim sé ekki salt yfir ákveðnum mörkum, ekki sykur yfir ákveðnum mörkum, ekki fita yfir ákveðnum mörkum o.s.frv. Þau mörk eru mjög mismunandi eftir því um hvaða vöru er að ræða: Er þetta mjólk, er þetta brauð, er þetta fiskur o.s.frv.? Þetta er ákveðið kerfi og það eru bara bestu vörurnar, hollustu vörurnar, sem ná skráargatsmerkinu. Það verður haldið utan um það í okkar stofnanakerfi og þá erum við komin inn í þetta norræna umhverfi ásamt hinum Norðurlöndunum að Finnlandi undanskildu. Finnland er með annað merki sem heitir Hjartamerkið, en ég held að þeir séu að íhuga að taka Skráargatið upp líka.

Ég vil líka draga það fram, sem kom fram hjá hv. talsmanni, Þór Saari, að ekki hafa allir verið sammála um þetta mál. Maður skyldi halda að allir segðu: Já, frábært mál, förum í þetta, gerum þetta, þetta er mjög snjallt. En það hefur ekki alveg verið svo, það hefur verið ákveðin togstreita hjá ýmsum fyrirtækjum og samtökum þeirra. Ég ætla að leggja það að baki, fyrst samstaða er að skapast um málið fari í gegn. Ég ætla þá ekkert að rifja þá togstreitu upp, en hún var til staðar. Ég held að hún hafi verið á misskilningi byggð og hræðslu hjá umræddum fyrirtækjum, það væri leiðinlegt að fáar vörur hjá þeim stæðust Skráargatið og þá væri betra að hafa það ekki o.s.frv. Einnig hefur verið einhver andstaða hjá þeim sem flytja inn og framleiða óhollar vörur sem til dæmis innihalda mjög mikinn sykur, ég get nefnt gos og sælgæti, slíkar vörur eiga ekki möguleika á að fá Skráargatið. Þær eru ekki taldar til lífsnauðsynja, til grunnmatarþarfar, þannig að þær eru ekki með í kerfinu og sumir hafa gagnrýnt það.

Af því að hv. þm. Þór Saari nefndi norsku pítsurnar vil ég geta þess að um það var deilt í Noregi þegar þær voru teknar inn: Eru frosnar pítsur hluti af grunnþörfum í mataræði? Manni finnst svarið vera nei. En þeir ákváðu að taka frosnu pítsurnar inn þannig að nú fá þessar hollu frosnu pítsur Skráargatið en hinar ekki. Það sýndi sig að Norðmenn borða alveg ótrúlega mikið af frosnum pítsum, það var eiginlega orðinn hluti af grunnmatarþörf þeirra.

Einnig hefur verið mjög athyglisvert að komast að því, af því að ekki er búið að samþykkja málið, við erum að samþykkja það hér á næstu dögum, að þrátt fyrir það hafa nokkur íslensk fyrirtæki tekið norræna hollustumerkið, Skráargatið, upp. Ég hef verið mjög hugsi yfir því. Hvernig má það vera? Hver er með eftirlit á þeim vörum? Líklega enginn. Ég held að Livsmedelsverket í Svíþjóð, sem er uppruni norræna Skráargatsins og heldur utan um það og leyfir svo hinum löndunum að koma inn í það með ákveðnu kerfi — ég efast um að sótt hafi verið um það til þeirra að fá að nota Skráargatið á þessar íslensku vörur. Ég þekki það ekki alveg, en ég efast um það.

Það má því segja að nokkur fyrirtæki hafi byrjað ótrúlega snemma, áður en kerfið er komið upp. Og maður spyr sig: Er það í lagi eða ekki? Ég ætla ekki að gera neinar sérstakar athugasemdir við það en ég vona bara að þær vörur sem hafa fengið Skráargatið standist öll viðmið og ég ætla bara að gefa mér að það sé og fagna því þá að menn séu byrjaðir þó að kerfið sé ekki komið upp. Það má því að vissu leyti segja að sumir hafi snúið vörn í sókn.

Í greinargerðinni, á bls. 15, kemur fram að gerðar hafi verið markaðskannanir í Noregi:

„Markaðskannanir í Noregi staðfestu tæplega 10% söluaukningu skráargatsmerktra vara og neytendur í Svíþjóð og Finnlandi segja að merkið hafi áhrif á vöruval þeirra. Það er í raun engin ástæða til að halda að Íslendingar muni haga sér öðru vísi, heldur munu skráargatsmerktar vörur njóta hylli þeirra umfram aðrar vörur.“

Hér er því markaðstækifæri með hollar vörur og ég tel það mjög jákvætt enda er málið reist á þeim grunni að aðstoða neytendur við að velja hollar vörur hratt og örugglega. Í hraða nútímans hlaupa menn inn í matvörumarkaði til að kaupa sér mat og það færi gríðarlegur tími í það ef allir þyrftu að rýna í miðann á matvörunni til að átta sig á innihaldinu. Hvað er nú mikið af salti í þessu og hve mikið af sykri? Hvert er fitumagnið o.s.frv.? Það fer mikill tími í það. En ef viðskiptavinurinn sér Skráargatið er hann öruggur, varan er í lagi. Merkið mun því auðvelda neytendum að velja holla vöru og nú þegar eru vörur á markaðnum hér, vörur sem við framleiðum — eitthvað af þeim vörum sem við flytjum inn koma merktar frá viðkomandi löndum, eins og sænskt hrökkbrauð, eða hvort það var finnskt, sem er merkt með Skráargatinu, en hér hafa menn þekkt það mjög lítið. Menn þekkja þetta mjög vel á Norðurlöndunum, það sýna kannanir, þar sem Skráargatið er þar þekkja menn merkið.

En hér eru sem sagt vörur sem hafa nýlega verið merktar með Skráargatinu. Árla ehf., sem framleiðir morgunkorn úr íslensku byggi fyrir íslenskan markað, hefur þegar tekið merkið upp á vörum sínum. Mjólkursamsalan hefur tilkynnt, og það er víst orðin staðreynd, að hún merki tvær skyrtegundir með Skráargatinu. Fleiri fyrirtæki, til að mynda Myllan, hafa lýst áhuga á að nota merkið verði það tekið opinberlega upp á Íslandi, þannig að það má segja að matvælaframleiðendur á Íslandi séu búnir undir upptöku Skráargatsins.

Mjólkursamsalan auglýsti á heilli opnu í blöðunum Skráargatið á skyr.is, á tveimur vörum, ég held að það séu jarðarberja- og bláberjaskyr, skyrdrykkur. Samkvæmt mínum upplýsingum er verið að kynna þetta í einhverjum matvöruverslunum þar sem fólk er með þessar vörur og veit allt um Skráargatið. Mér skilst að Mjólkursamsalan hafi lagað sig að hollustumerkinu Skráargatinu og minnkað hvítan sykur í skyr.is, aukið magn ávaxtasykurs, sem er leyfilegur — aspartam er ekki leyfilegt í norræna hollustumerkinu, það er ekki hægt að svindla með því að taka hvítan sykur út og bæta aspartam við. Þeir hafa gert einhverjar fleiri breytingar, held ég, á þessum drykk þannig að núna, að þeirra sögn og við leyfum okkur að trúa því, standast þessar vörur Skráargatið. Svo er það þetta íslenska bygg líka, morgunkorn úr íslensku byggi.

Ég ætla því að leyfa mér að fagna því að íslensk fyrirtæki séu að skella sér af stað í Skráargatið, þau sem eru með það mikla hollustuvöru að þau geta það. Á sama tíma segi ég að við verðum sem fyrst að samþykkja þetta mál og koma kerfinu upp. Við getum ekki verið með skráargatsmerktar vörur án þess að hafa eftirlit með þeim, það sé alvöru Skráargat. Það er því mikilvægt að klára þetta mál.

Ég vil að lokum fagna mjög þessu framsýna skrefi sem þingið virðist vera að stíga, að bjóða neytendum upp á auðveldara val. Þar með munu Íslendingar sem fara í verslanir geta verslað holla vöru, sem þeir geta treyst, hratt og örugglega og væntanlega bætt heilsu sína í kjölfarið. Ég held að merki af þessu tagi verði meira áberandi í framtíðinni. Það er mjög mikilvægt að það sé mikill trúnaður um þessi merki og traust svo að neytendur viti að þeir séu að kaupa það sem þeir halda að þeir séu að kaupa. Norræna hollustumerkið, Skráargatið, er þannig merki. Það er fyrsta merkið, það er mjög merkilegt, sem gengur yfir landamæri, sem er ekki bara í einu landi. Þetta er sem sagt merki sem gengur yfir Svíþjóð, Noreg, Danmörku og núna Ísland. Vonandi koma Finnarnir með.

Þetta er því mjög gott mál, öflugt mál, og ég treysti á að þau fyrirtæki sem taka upp Skráargatið verði dugleg við að auglýsa það af því að það hjálpar í allri kynningu á merkinu. Það er mikilvægt að ríkissjóður leggi peninga í kynningu á merkinu en það er líka gríðarlega mikilvægt að markaðirnir sjálfir kynni og sjái um þetta. Það er svo sannarlega markaðstækifæri fyrir þessar vörur og það er mikilvægt að markaðurinn auglýsi merkið bæði fyrir sig en líka svo að neytendur þekki það.