140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hér á landi eru allar forsendur fyrir því að búa til fyrirmyndarsamfélag þar sem almenn velferð ríkir og næg atvinna. Það er öfundsvert að búa á Íslandi, við erum þjóð sem hefur af mörgu að státa, við erum ein menntaðasta þjóð í veröldinni og höfum þar af leiðandi af gríðarlegum mannauði að státa. Við eigum miklar orkuauðlindir sem geta skapað fjölmörg störf og miklar afurðir og verðmæti. Við höfum sjávarútveginn allt í kringum landið sem skapar landsmönnum öllum gríðarleg verðmæti og svo höfum við íslenska náttúru og ferðaþjónustu sem hefur verið umfangsmikil á undangengnum árum og í mikilli sókn.

Þess vegna höfum við sem þjóð óteljandi tækifæri til að vinna okkur út úr þeim efnahagsörðugleikum sem við erum í og ég er bjartsýnn á að ef rétt er haldið á málum hafi fáar þjóðir eins mörg tækifæri og við Íslendingar til að skapa almenna velferð í landinu og mikla atvinnu.

Við þurfum því að nýta þessi tækifæri. Því miður er það svo að á þeim rúmlega þremur árum sem liðin eru frá bankahruninu hefur okkur ekki tekist að snúa vörn í sókn. Opinberar tölur segja það. Það er óásættanlegt í fyrsta lagi að atvinnuþátttaka sé sú minnsta sem Hagstofan hefur mælt frá árinu 1991 og að störfum á fjórða ársfjórðungi ársins 2010 til fjórða ársfjórðungs 2011 hafi fækkað um 3.100. Það er líka óásættanlegt að fjárfesting hér á landi sé í sögulegu lágmarki, að fjárfesting sé einungis 13% nú þrátt fyrir öll þau tækifæri sem ég nefndi hér að framan. Meðaltalsfjárfesting síðustu áratuga hefur verið um 21%. Það vantar því heil 8 prósentustig þar upp á, um 140 milljarða kr. í árlega fjárfestingu, sem hefði skilað sér í auknum umsvifum, í skatttekjum til ríkisins, tekjum af virðisaukaskatti, útsvari til sveitarfélaga, meiri tekjum heimilanna og aukinni atvinnu og leitt af sér að fólk ætti auðveldara með að standa í skilum með stökkbreyttar skuldir sínar og að ríkissjóður þyrfti ekki að greiða árlega um 20 milljarða kr. í atvinnuleysisbætur.

Það er því ástæða til þess, í ljósi þeirra tækifæra sem við höfum, að breyta umhverfi atvinnulífsins. Við framsóknarmenn höfum lagst í mikla vinnu á síðasta ári og þessu og við höfum lagt fram mjög ítarlega skýrslu um tillögur okkar í atvinnumálum. Við höfum rætt við hagsmunaaðila atvinnulífsins um breytingar á umhverfi atvinnulífsins hér á landi og í þeim viðtölum hefur komið fram og í vinnu okkar að gerðar hafa verið handahófskenndar breytingar á starfsumhverfi atvinnulífsins með örum breytingum á skattumhverfinu. Mönnum reiknast til að þær séu um 170 talsins.

Ríkisstjórnin hefur haldið sjávarútveginum allt frá ársbyrjun 2009 í heljargreipum og þar ríkir mikil óvissa um hvert rekstrarumhverfi þeirrar undirstöðugreinar á að vera. Þar með höfum við í reynd komið í veg fyrir eðlilega fjárfestingu í þessari mikilvægu atvinnugrein sem gæti hafa skapað hundruð eða þúsundir starfa á þessum rúmum tveimur árum.

Mig langar líka að inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvernig standi á því að rammaáætlun hafi ekki enn litið dagsins ljós sem átti að birtast á síðasta ári, um það hvernig við viljum verja íslenska náttúru og nýta jafnframt auðlindir hennar. Á meðan þessi pattstaða er uppi geta orkufyrirtækin meðal annars ekki farið í nauðsynlegar rannsóknir á ýmsum náttúruauðlindum þannig að hér er enn einn steinninn lagður í götu fjárfestingar og atvinnustefnu. Ég spyr líka hæstv. forsætisráðherra hvernig standi á því að samgönguáætlun hefur verið lögð fram rúmu ári á eftir áætlun. Það hefur leitt af sér að litlar framkvæmdir hafa verið í samgöngumálum. Reyndar er það svo með þá áætlun sem hefur verið birt í þinginu að um metnaðarlausasta plagg er að ræða þegar kemur að samgöngumálum hér á landi.

Það er því eðlilegt að við spyrjum um atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar. Hlutirnir þurfa ekki að vera eins og þeir eru, við gætum verið búin að skapa mun fleiri störf á Íslandi í dag og það er spurning hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Við köllum eftir lausnum og aðgerðum í þeim efnum.