140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:42]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það eru mikil öfugmæli sem hæstv. forsætisráðherra fer hér með og hæstv. utanríkisráðherra í morgun þegar hann lýsti því yfir að kreppunni væri lokið. Stjórnarþingmenn hafa haldið lofræður um ástandið í landinu á undanförnum dögum. Á meðan hefur störfum fækkað svo þúsundum skiptir.

Virðulegi forseti. Aukin fjárfesting verður grunnur að aukinni velferð, grunnur að efnahagslegri endurreisn okkar. Þrátt fyrir að ágætir hlutir séu að gerast í ferðaþjónustu til dæmis og á einhverjum öðrum sviðum verður engin viðreisn í fullri alvöru fyrr en við komum fjárfestingu af stað í íslenskum sjávarútvegi og orkufrekum iðnaði. Það verður ekki alvöruviðreisn fyrr en þessar stóru höfuðgreinar fara af stað.

Við vitum öll hvernig staðan er í sjávarútvegi, þar hefur fjárfesting á síðustu tveimur árum verið í kringum 4,5–5 milljarðar en hefði þurft að vera nær 20 milljörðum. Nú á að ganga á hagsmuni sjávarútvegsins með því að setja á 9,1 milljarðs veiðigjald á hann á hausti komanda. Það mun rýra getu greinarinnar til fjárfestinga, auk þess sem mjög alvarleg staða er að verða á mörkuðum okkar með sjávarafurðir og alls ekki útséð um hvernig það fer á þessu ári.

Rammaáætlun er enn föst hjá ríkisstjórninni og hann er augljós, sá ágreiningur sem er innan ríkisstjórnarflokkanna og milli þeirra um rammaáætlun. Þau voru þröng skilyrðin sem sett voru af hálfu Vinstri grænna, og í raun buðu þeir upp á engar málamiðlanir þegar þetta var tekið fyrir á landsfundi þeirra í haust. Í rammaáætlun er tekið til virkjanakosta. Það er aðeins einn virkjanakostur sem er kominn það langt að hægt sé að fara í framkvæmdir og að það hafi áhrif á efnahagslífið á næstu árum og það er Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár. Um það getur ekki orðið nein sátt. Það dugar ekki annað til.

Virðulegi forseti. Meðan (Forseti hringir.) þetta er stopp verður ekki sú viðreisn sem við þurfum á að halda. Þessi þrjú ár sem þessi ríkisstjórn hefur setið (Forseti hringir.) eru þrjú ár glataðra tækifæra á þessum vettvangi.