140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að hefja þessa ágætu umræðu sem þyrfti að vera hérna einu sinni í viku þangað til ríkisstjórninni tekst að skapa umgjörð fyrir fleiri störf. Helstefna ríkisstjórnarinnar, þ.e. stefnuleysi í þeirri vonlausu tilraun að skattleggja þjóðina út úr kreppunni, hefur beðið skipbrot. Hún er búin að flækja skattkerfið, hún er búin að ráðast á sjávarútveginn, hún vill engar virkjanir og það má ekki auka kvótann aukalega. Vandræði heimilanna stafa af því að atvinna hefur horfið, margir hafa orðið atvinnulausir. Margir voru í tveimur eða þremur störfum fyrir hrun. Aukastörfin hafa horfið. Eftirvinnan hvarf. Aukabónusinn hvarf. Yfirvinnan hvarf. Tekjur heimilanna hafa minnkað stórlega. Þetta er aðalforsendubresturinn. Heimili með skertar tekjur geta ekki staðið undir hækkun skatta hæstv. ríkisstjórnar, hækkun verðlags og hækkun lána. Þetta er vandamálið og miðstéttaraulinn japlar endalaust á loforðum hæstv. forsætisráðherra. Það er alltaf verið að lofa inn í framtíðina, lofa auknum störfum, fjárfestingarsamningum o.s.frv., allt inn í framtíðina. Hvar sækir maður um þessi störf núna, ekki eftir tíu ár?

Ísland er mjög ríkt land. Hér er mikill mannauður, þ.e. hér var mikill mannauður. Því miður höfum við þurft að sjá á bak fjölda vel menntaðs fólks til útlanda í kjölfar þessarar stefnu.

Margir hafa farið í háskóla. Þeir eru núna að koma úr háskólunum. Þeir eru búnir að ljúka sínu þriggja ára námi og hvað bíður þeirra? Ekkert — nema Noregur.

Rammaáætlun er ekki afgreidd. Það er ekki hægt að virkja. Það er ekki byrjað að aflétta skattáþjáninni, en það er (Forseti hringir.) það sem við þurfum að gera.