140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Mér er til efs að hæstv. forsætisráðherra hafi hlustað á framsögu mína í þessari umræðu því að hún kom hér upp og talaði um bölmóð í umræðunni. Ég benti akkúrat á öll þau tækifæri sem íslensk þjóð hefur til að fjölga störfum á Íslandi og hvaða mistök hafi verið gerð á síðustu tveimur til þremur árum í að fylgja því mikilvæga verkefni eftir. Mér finnst hæstv. forsætisráðherra helst til viðkvæm fyrir málefnalegri gagnrýni. Ég benti á að atvinnuþátttaka hefur aldrei verið lægri en í síðustu mælingu Hagstofu Íslands. Ég held því ekki fram, heldur Hagstofa Íslands. Þegar hæstv. ráðherra heldur því fram að fólki á atvinnuleysisskrá hafi fækkað gleymir hún að nefna að hundruð einstaklinga eru að detta út af atvinnuleysisbótum og munu fara á framfærslu viðkomandi sveitarfélaga. Ef það er einhver skilgreining á velferð eða aukinni atvinnuþátttöku er það röng nálgun að mínu viti.

Mér finnst líka hæstv. forsætisráðherra oft fara nokkuð frjálslega með tölulegar staðreyndir. Hún mótmælti því þegar Hagstofan kom fram á sínum tíma með þá staðreynd að fólksflótti væri mikill frá landinu. Síðast í morgun sagði hún það tóman misskilning hversu mikill hlutur ríkisins væri í hækkun á eldsneytiskostnaði hér á landi og nefndi það í morgun að hluturinn væri 3 kr. Félag íslenskra bifreiðaeigenda leiðrétti hæstv. forsætisráðherra í hádeginu og sagði að hækkun álagningar ríkisins væri 6 kr. Þess vegna horfum við upp á eldsneytisverð í hæstu hæðum.

Hæstv. ráðherra verður að fara að hlusta á Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, Félag íslenskra bifreiðaeigenda og fleiri aðila. Þetta er ekki allt eintómur misskilningur sem við höldum hér fram. Við þurfum að fara að nýta tækifærin.

Mig langar að lokum að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort (Forseti hringir.) hún hafi kynnt sér ítarlegar tillögur Framsóknarflokksins í atvinnumálum sem við viljum hrinda í framkvæmd hið fyrsta.