140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[13:58]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst út af því sem hv. þingmaður nefndi um bensínhækkanirnar, þær tölur sem ég nefndi í morgun voru teknar beint af vefsíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda þar sem var talað um 3,5 kr. sem skattálögur hefðu aukist.

Fyrri hluti ræðu hv. þingmanns í upphafi þessarar umræðu var ágætur. Hann sagði að það væru mörg sóknarfæri o.s.frv., en svo fór á verri veginn þegar leið á ræðuna því að þá fór hann að tala um mistök. Hvaða mistök eru það sem hafa verið gerð? Hafa verið gerð mistök í að lækka halla ríkissjóðs þegar hann var 14,5% af landsframleiðslunni niður í 1,5%? Eru það mistök að hafa náð upp hagvextinum þannig að hann er margfalt meiri en gerist í Evrópulöndunum? Eru það mistök? Eru það mistök að lækka skatta á fólk með lágar og meðaltekjur (Gripið fram í: Rangt.) þannig að 60% skattgreiðenda greiði hér lægri skatta nú en þeir gerðu 2008? [Kliður í þingsal.] Voru það — (JónG: Það er rangt.) Voru það mistök að fara þannig í skattumhverfi fyrirtækja að við erum núna að lækka tryggingagjald? (Gripið fram í.) Við höfum verið að endurgreiða skatta vegna kvikmyndagerðar, farið í ívilnanir vegna nýfjárfestinga, varðandi nýsköpun og sprotafyrirtæki. Allt hefur þetta gagnast atvinnurekstrinum. Það eina sem þið tuðið um, hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, er að það séu 100 skattbreytingar. Þið farið hins vegar ekki í það skattumhverfi sem við höfum búið til fyrir þessi fyrirtæki, farið ekki í það að skatttekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu voru 31–33% á árunum 2005–2007 en eru núna 27–28% af vergri landsframleiðslu, þ.e. um fjórum prósentustigum minni. Þetta kallið þið að búa illa að atvinnulífinu. Mér finnst að þið eigið að horfa til þess að við erum á (Forseti hringir.) réttri leið, alveg eins og ég sagði að væntingavísitalan sem nýlega hefur verið birt gæfi til kynna. Það er full ástæða til bjartsýni í íslensku samfélagi.