140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[14:01]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með hæstv. forseta þegar hún beinir þeim tilmælum til hæstv. ráðherra um að ávarpa þingmenn rétt og að beina orðum til hæstv. forseta. En mig langar að koma með þá beiðni til frú forseta að við höfum það fastan dagskrárlið einu sinni í viku að ræða atvinnumál og gefa þá rýmri tíma til að fara yfir þau mál.

Ég beini því til frú forseta vegna þess að mér sýnist hæstv. forsætisráðherra vera í allt öðrum hugarheimi en stjórnarandstaðan í þinginu og helstu hagsmunaaðilar í samfélaginu. Ég fer þess því formlega á leit við frú forseta að hún hlutist til um að einu sinni í viku verði umræða hér lengd til þess að ræða atvinnumál og starfsumhverfi atvinnulífsins, vegna þess að mér sýnist að hæstv. forsætisráðherra sé því miður ekki í neinum tengslum við raunveruleikann þegar kemur að þeim málum.