140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[14:02]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tek eindregið undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni um þetta. Ég tel að það ætti í raun að vera tvisvar í viku. Fyrst ættum við ræða atvinnumálin frá degi til dags eins og þau koma fyrir á þessum tímum og síðan ættum við að ræða sérstaklega um stefnu Framsóknarflokksins í atvinnumálum bæði fyrr og síðar, (Gripið fram í.) bæði það sem (Gripið fram í.) Framsóknarflokkurinn hefur nú sett fram af fullkomnu ábyrgðarleysi og án nokkurs tillits til þess hvernig fjárhag landsins er komið og hvernig málin standa, en ekki síður er þörf á því að ræða mjög nákvæmlega um hvaða þátt Framsóknarflokkurinn á í þeirri stöðu sem (Forseti hringir.) atvinnulífið er núna í, hvaða þátt Framsóknarflokkurinn átti í hruninu og hvaða þátt Framsóknarflokkurinn átti í (Forseti hringir.) kvótakerfinu, í Kárahnjúkavitleysunni, í 100% lánunum og öðrum þeim mistökum (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) við hagstjórn sem hér hafa eyðilegt bæði fyrir atvinnulífinu (Forseti hringir.) og ekki síður heimilunum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)