140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[14:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hér er farið fram á að ræða atvinnumálin oftar en við gerum í þingsal og skal tekið undir það. Ekki veitir af því að ræða þessi mál oftar til að koma stjórnarandstöðunni niður á raunveruleikaplan í þeim efnum. Hún er alveg úr tengslum við allan raunveruleika, úr tengslum við hvað er að gerast í íslensku atvinnulífi og á atvinnumarkaðnum í heild sinni, þannig að þetta voru sannarlega orð í tíma töluð. Hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar þurfa á því að halda að við förum oftar yfir atvinnumálin þannig að þeir fari einu sinni að tala sannleikann í þessu efni sem þeir gera ekki heldur þvert á móti í hvert skipti sem þeir koma í ræðustól. Það er eins og þeir búi ekki í íslensku samfélagi.