140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

orkuskipti í samgöngum.

377. mál
[14:23]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta mikilvæga mál sé tekið fyrir með svo skipulegum og kerfisbundnum hætti eins og gert er í þessari skýrslu. Á nákvæmlega þessum málum veltur mikið til framtíðar. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég hef því miður haft mjög takmarkaðan tíma til að kynna mér í þaula öll þau mörgu mál sem tekin eru fyrir í skýrslunni. Umfjöllun mín verður því nokkuð yfirborðskennd að sinni en ég hlakka til að velta hér við hverjum steini, eins og þar er sagt, í þessari miklu skýrslu og þeirri vinnu sem ber að fagna.

Það er náttúrlega ljóst að á vettvangi Grænu orkunnar eru leiddir saman fjölmargir aðilar, stofnanir, samtök og fyrirtæki sem eiga það sameiginlegt að vinna að orkuskiptum í samgöngum með það fyrir augum að innlendir endurnýjanlegir orkugjafar komi í stað jarðefnaeldsneytis. Það er sannarlega ekki vanþörf á, því að hlutur endurnýjanlegrar orku í samgöngum á Íslandi er að svo komnu máli innan við 1%.

Eitt af þeim markmiðum sem sett voru fram í heildstæðri orkustefnu fyrir Ísland er eins og hér hefur komið fram, með leyfi forseta:

„… að stuðla að orkuskiptum með aukinni hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum og skipaflota, þannig að þeir verði að minnsta kosti 10% af heildarorkunotkun á þessum sviðum fyrir árið 2020.“

Til að ná þessu markmiði þarf að tífalda hlut endurnýjanlegra orkugjafa á innan við tíu árum. Þessu markmiði verður augljóslega varla náð nema farið sé í málið af festu og verkin látin tala á mismunandi sviðum.

Í skýrslunni sem hér er til umræðu eru kortlagðar færar leiðir til að framleiða endurnýjanlegt eldsneyti til samgangna. Sú kortlagning er mikilvæg til þess að ná því markmiði að láta endurnýjanlega orkugjafa leysa innflutta orku af hólmi. Af möguleikunum má til dæmis nefna metanvinnslu í landbúnaði og urðunarstöðum líkt og tíðkast hefur hjá Sorpu frá því árið 2000 og ég kunni vel að meta umræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar um metan áðan. Metanól er hægt að vinna úr koldíoxíðsútblæstri, svo sem við jarðvarmavirkjanir, og nota sem íblöndunarefni í bensín. Suma vistvæna orkugjafa er hægt að nota á vélar sem gerðar eru fyrir jarðefnaeldsneyti ýmist án breytinga á vélum, samanber þegar notast er við íblöndun vistvæns eldsneytis í bensín, eða með breytingum, samanber þegar bensínbíl er breytt þannig að hann geti einnig brennt metani. Þessir valkostir hafa það umfram aðra að bílaflotinn sem fyrir er í landinu getur nýtt sér þá. Algengur líftími bíla er um 15 ár, og því er mikilvægt að gera það sem hægt er til að grænka bílaflotann sem fyrir er og nýrri bifreiðar sem eiga eftir að vera í umferðinni í mörg ár. Þetta er mikilvægur punktur, frú forseti.

Eldsneyti vegur þungt í viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins og með markvissum orkuskiptum er því hægt að ná umtalsverðum þjóðhagslegum árangri. Árið 2009 voru flutt til landsins um 660 þús. tonn af olíu, eða sem nemur rúmum tveimur tonnum á hvern íbúa landsins. Verðmæti innflutts eldsneytis og smurolíu var 51 milljarður kr. árið 2009 eða sem nemur um 12% af öllum vöruinnflutningi það ár. Um 61% olíunnar eru nýtt sem eldsneyti í samgöngum, 41% á bíla, 18% í flug og 2% til samgangna á sjó. Önnur notkun er iðnaður og fiskveiðar en hlutdeild fiskveiða er um 29%.

Í heildstæðri orkustefnu sem eins og fyrr segir var kynnt í nóvember síðastliðinn er haft að leiðarljósi að orkubúskap Íslands verði hagað með sjálfbærum hætti samfélaginu og almenningi til hagsbóta. Enn fremur eru þar sett fram sex meginmarkmið er varða orkuöryggi landsins; náttúruvernd, að þjóðin njóti arðs af auðlindum, hámörkun framlegðar orkubúskapar, fjölbreytt orkuframboð og að dregið verður úr notkun jarðefnaeldsneytis.

Með orkuskiptum í samgöngum og þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir er auðvitað unnið að öllum þessum markmiðum með mismunandi hætti.

Komið er með ýmsum hætti inn á einkabílinn, enda er það rétt sem kemur fram í skýrslunni að einkabíllinn er og verður væntanlega það samgöngutæki sem við Íslendingar munum fyrst og fremst notast við. En ég verð að fá að gera örlítinn ágreining eða alla vega umhugsunarefni við það sem kemur fram á bls. 32 þar sem gerð er „tillaga um að Alþingi samþykki þá grundvallarstefnu að ívilnanir í tengslum við orkuskipti í samgöngum á Íslandi muni ekki koma til endurskoðunar fyrr en í fyrsta lagi 2020 og þegar 10% bílaflota landsins falla undir skilgreininguna um vistvænar bifreiðar“.

Mér finnst það alla vega umhugsunarefni hvort við eigum að bíða í svo langan tíma til að gera þetta en að öðru leyti er auðvitað farið vel yfir ýmis efni í þessum geira.

Svo langar mig líka til að koma inn á að mér finnst að það hefði mátt vera ítarlegri umfjöllun um almenningssamgöngur, því að eins og ég sagði áðan og kemur fram að jafnvel þótt einkabíllinn sé og verði helsta samgöngutæki okkar Íslendinga eru ýmis tækifæri í almenningssamgöngum. Ef þær eru greiðar og lögð er mun meiri og einbeittari áhersla á þær, sérstaklega á þéttbýlissvæðum, notar fólk þær einfaldlega meira, þá verður einkabíllinn ekki lengur það grunnsjónarmið sem hann er. Hér er einnig talað um hjólreiðastíga og göngustíga og það rætt mjög vel. Einnig finnst mér fín umfjöllun um skipaflotann og ýmsar tillögur sem þar verður að taka vel til skoðunar og fara að vinda sér í.

Svo langar mig að lokum, frú forseti, að segja að það er ákaflega mikilvægt í allri þessari umræðu að halda því til haga að svona viðleitni til ábyrgðar í umhverfismálum, viðleitni til þess að byggja hér upp sjálfbært samfélag og stuðla að sjálfbærri þróun, er í eðli sínu nýsköpun, felur í sér tækifæri, spennandi tækifæri til atvinnusköpunar og tækninýjunga. Oft er talað eins og að ábyrgð í umhverfismálum og sjálfbær þróun sé eitthvað sem er andsnúið atvinnuþróun, nýsköpun og tækniframförum. Það er aldeilis ekki. Þarna felast gríðarlega spennandi og mikilvæg tækifæri fyrir okkur til framtíðar. Kafli 6 fjallar einmitt um nýsköpun og þróun, þar er meðal annars talað um menntamál, rannsóknir, fjárfestingasjóð. Það er alveg ljóst að styrkja verður uppbyggingu innviða ef við ætlum raunverulega að láta verkin tala í þessum efnum. Þá opnast ýmsir spennandi möguleikar sem stuðla að ekki bara ábyrgð í umhverfismálum, sjálfbærni og (Forseti hringir.) betri hegðun okkar Íslendinga í meðal annars stærsta máli okkar tíma sem eru loftslagsbreytingar, (Forseti hringir.) heldur einmitt gríðarlega spennandi nýjum tækifærum í efnahagsmálum og atvinnumálum.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að gæta að ræðutíma.)