140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

orkuskipti í samgöngum.

377. mál
[14:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá skýrslu sem hér er til umræðu og málið allt, því það er vitanlega mjög mikilvægt fyrir okkur að gera það sem við getum til að skipta úr jarðefnaeldsneyti yfir í orkugjafa sem eru minna mengandi eða nánast mengunarlausir. Stóra myndin er kannski ekki svo einföld að það sé endilega minni mengun af hinum svokölluðu tvinnbílum eða vistvænum bílum, það má ekki gleyma framleiðsluferlinu á bak við bílana. Það sem við getum hins vegar gert er vitanlega að reyna að auka notkun endurnýjanlegrar orku og spara þar af leiðandi eldsneyti og vernda umhverfið.

Þessi skýrsla er mjög gott innlegg í þá umræðu. Það sem ég vil samt segja í upphafi, án þess að ég hafi kannski pælt algjörlega til enda hvort allt í henni sé raunhæft, er að það er betra að horfa á hlutina þannig að þá megi endurskoða ef þarf, því við megum ekki heldur setja okkur óraunhæf markmið eða gera okkur óraunhæfar væntingar. Ég á þá við hvort sá tímaþáttur sem hér er nefndur standist og ýmislegt annað. Á bls. 44 kemur til dæmis fram að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum eru innan við 1% í dag, en ætlunin er að ná því í 75% af nýskráðum bifreiðum undir 5 tonnum árið 2020, þ.e. að þeir noti endurnýjanlega orkugjafa. Þetta er mjög flott og gott markmið og vonandi er hægt að ná því en ég vil velta því upp, forseti, hvort við séum að skjóta yfir markið einhvers staðar. Það þarf ekki að vera, en hins vegar er mikilvægt að við höfum einhverja stefnu til að vinna eftir í þessu.

Síðan vil ég nefna sjávarútveginn. Um hann er töluvert rætt í skýrslunni, eðlilega, enda mikil notkun þar á jarðefnaeldsneyti. Ég held að mikilvægt sé fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því á hve löngum tíma sé raunhæft að ná árangri þar. Ég held að við ættum líka að velta því fyrir okkur hvort ekki sé hægt að setja fram hvata til að breyta fiskiskipum eða að við nýsmíði sé hugað að því að nýta afurðir sem falla til um borð í skipunum og eru ekki nýttar á annan hátt, og framleiða hugsanlega lífrænt eldsneyti úr þeim með tækjabúnaði sem er um borð í skipunum og nýta þar þá orku.

Ég veit ekki hvort ráðherra hefur svör við því hvort lagt hafi verið lagt mat á kostnað og tíma sem snýr að breytingum hjá fiskiskipaflotanum. Það kann að vera að svo sé gert í skýrslunni, ég hef ekki rekist á það, það væri ágætt ef ráðherra gæti farið yfir það hér á eftir hvort lagt hafi verið mat á þetta.

Hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi að við ráðum kannski ekki alveg förinni í þessu máli. Það er mikið til rétt, því að framleiðendur bíla, tækja og vélbúnaðar hafa að sjálfsögðu mikið um þetta að segja, en við verðum vitanlega að passa okkur á því að dragast ekki aftur úr. Við verðum í það minnsta að fylgja þróuninni. Við þurfum, eins og nefnt er í þessari ágætu skýrslu, að gera ráðstafanir til framtíðar.

Hér er meðal annars talað um að breyta byggingarreglugerð og setja 15 ampera rafmagnstengla utan á hús. Það er mjög gott að horfa þannig til framtíðar. Við þurfum náttúrlega líka að horfa á aðra hluti. Hvernig er raforkukerfið í dag, til dæmis hjá sveitarfélögunum, í stakk búið til þess að taka við þessum hlutum? Þurfum við að horfa til þess þegar farið er í gatnagerð, breytingar á bílastæðum eða eitthvað slíkt, að gera ráðstafanir til framtíðar varðandi þetta? Það getur komið í bakið á okkur að gera það ekki. Hver er kostnaðurinn við að breyta þessu?

Ég vona að ég sé ekki að misskilja neitt og mér finnst þetta jákvætt og mjög gott framtak, að þessu eigum við að sjálfsögðu að stefna. Ég fagna því. Ég held að þetta sé það sem koma skal. Hvort við erum að veðja á eina orkutegund umfram aðra er ekki gott að segja. Ástandið í metanmálum er þannig í dag að hægt er að fá metan á orkustöð á Reykjavíkursvæðinu og einhvers staðar á Suðurlandi, held ég. Ég hef kannað kosti þess að fá að kaupa mér metanbíl, en ég kemst heim til mín aðra leiðina og örstutt áleiðis til baka á metaninu, þá verður bensínið að taka við. Þannig er nú ástandið. Ég kæmist svona rétt áleiðis í kjördæminu áður en ég þyrfti að keyra á bensíni. Þetta er vitanlega sá raunveruleiki sem við búum við. Það er kannski ólíklegt að hægt sé að hafa þessar stöðvar út um allar trissur, og meiri líkur á að hægt sé að koma rafmagni út um allt land. Hver þróunin verður veit maður ekki.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég fagna því að þessi skýrsla er komin fram. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að væntingar og áætlanir verða að sjálfsögðu að vera raunhæfar. Það verður að fara vel yfir alla hluti í kringum þetta, hvar lendir kostnaðurinn, hvar þurfum við að horfa til framtíðar? Þurfum við að setja fjármuni í nýsköpunarþáttinn, eins og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir nefndi réttilega? Hann er mjög mikilvægur. Þar eigum við Íslendingar mögulega kost á að koma á framfæri tækniþróun og tækninýjungum sem getur vonandi hjálpað þeim sem eru að framleiða vélar og tæki, því ekki vantar hugvitið á Íslandi til að virkja.

Frú forseti. Ég fagna skýrslunni, en ítreka þau orð sem ég hafði uppi áðan.