140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

orkuskipti í samgöngum.

377. mál
[14:37]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna þessari umræðu og ekki síður þeirri skýrslu sem hún byggir á, skýrslu Grænu orkunnar. Þetta er mikilvægt mál sem tengist nýrri atvinnustefnu á Íslandi, metnaðarfullum áætlunum stjórnvalda í loftslagsmálum, tillögum um eflingu græna hagkerfisins o.s.frv. Grundvöllurinn er almenn stefnuyfirlýsing sem kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að mótuð sé í landinu heildstæð orkustefna sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi. Eins og aðrir ræðumenn, þar á meðal hæstv. fjármálaráðherra, hafa komið inn á er verk að vinna, því veruleikinn er sá að hlutur endurnýjanlegrar orku í samgöngum er nú vel innan við 1%. Það kom einnig fram að vel innan við 0,5% af bílaflotanum telst til vistvænna ökutækja um þessar mundir, en hins vegar er það gleðiefni að þróunin er farin af stað. Fjöldi ökutækja sem nýtir vistvænt eldsneyti að hluta eða öllu leyti hefur þrátt fyrir allt tvöfaldast frá árinu 2007 og fjöldi bíla sem breytt hefur verið í metanbíla hefur tæplega tvöfaldast á undanförnum fimm árum.

Það sem er gleðilegt við þessa skýrslu er að hér er leitast við að samþætta áherslur úr þeim stefnuplöggum sem samþykkt hafa verið á undanförnum árum, bæði úr orkustefnu, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, umhverfisstefnunni Velferð til framtíðar, viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um eflingu almenningssamgangna og síðan tillögu nefndar Alþingis um græna hagkerfið.

Sú síðastnefnda stendur mér sem veitti forstöðu þeirri nefnd nokkuð nærri. Ég vildi eyða nokkrum orðum í að reifa þær tillögur sem komu fram í skýrslu nefndarinnar um græna hagkerfið sem tengjast þessu tiltekna málasviði. Þar má nefna að við leggjum áherslu á í þeirri tillögugerð að staðinn sé vörður um rekstrarumhverfi þeirra greina sem tengjast endurnýjanlegri orku til samgangna þannig að þær greinar hafi ákveðið skattaskjól meðan þær eru að vaxa úr grasi. Sömuleiðis er lagt til að framlengd verði gildandi heimild til endurgreiðslu vörugjalda til þeirra sem láta breyta bílum sínum í vistvæn ökutæki. Eins og við þekkjum fela gildandi lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., sem tóku gildi fyrir réttu ári síðan, meðal annars í sér að menn eiga rétt á endurgreiðslu upp að tiltekinni fjárhæð, 100 þús. kr., sem láta breyta bílum sínum. Ég held að færa megi fyrir því góð rök að þessi fjárhæð mætti gjarnan vera hærri til að flýta fyrir þessari þróun, hér hefur samt sem áður mikilvægt fyrsta skref þegar verið tekið.

Nefndin um græna hagkerfið lagði til að felldir væru niður tollar á reiðhjól og tengdan búnað. Ég held að þetta væri mikilvægt táknrænt skref sem mundi senda mikilvæg skilaboð til almennings og tekjutap ríkisins yrði ekki umtalsvert, líklega 30–40 millj. kr. á ári.

Sömuleiðis held ég að gustuk væri að leiðrétta stöðu þeirra einstaklinga sem nýta aðra samgöngumáta en einkabílinn til að komast til og frá vinnu. Taka mætti upp samgöngustyrki í auknum mæli, bæði í opinbera geiranum og í atvinnulífinu almennt til að jafna stöðu þeirra sem hjóla, taka strætó eða ganga.

Ég vil að lokum leggja áherslu á að vistvænar samgöngur eru eitt af megináhersluatriðunum í grænu hagkerfi. Ég tel að þegar við leggjum stefnu um það hvers konar fjárfestingar við viljum fá inn í landið eigi vistvænar samgöngur að vera eitt af tveimur, þremur helstu áherslusviðum okkar, ásamt ýmsum af þeim greinum sem þegar er farið að sjá merki um í íslensku atvinnulífi. Maður heyrir að mikill og góður stuðningur er við þessi mál í öllum flokkum. Ég held að hér sé að skapast möguleiki á þverpólitísku baráttumáli til framtíðar. Ég vil hvetja okkur öll til þess að gæta þess við næstu fjárlagagerð að orkuskipti (Forseti hringir.) í samgöngum njóti þar sannmælis í uppbyggingu á næsta ári.