140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

orkuskipti í samgöngum.

377. mál
[14:46]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir umræðu um þessa skýrslu sem er afar gagnleg og kærkomin í umræðuna hér á þinginu. Í inngangi að skýrslunni kemur fram hvert markmiðið með þessari vinnu var, þ.e. með skipun þess starfshóps sem iðnaðarráðherra skipaði til að fara yfir orkumálin og hvernig þau skipti geti farið fram í orkunotkun hér á landi sem stefnt er að með skýrslunni og sömuleiðis í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna.

Með leyfi forseta, segir í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna um þessi mál:

„Mótuð verði heildstæð orkustefna sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi. Við orkuframleiðslu með vatnsafli og jarðvarma verði gætt varúðar- og verndarsjónarmiða. Orkustefnan styðji við fjölbreytt atvinnulíf, með áherslu á uppbyggingu vistvæns hátækniiðnaðar. Í orkustefnu verði sjálfbær nýting höfð að leiðarljósi sem forðast m.a. ágenga nýtingu á jarðhitasvæðum.

Ísland standi við loftslagsskuldbindingar sínar og leggi fram metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum fyrir alþjóðlega loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn í desember 2009.“

Að lokum segir í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, með leyfi forseta:

„Gerð verði áætlun um orkusparnað, jafnt fyrir atvinnufyrirtæki og heimili.“

Til þessarar stefnu stjórnarflokkanna og stjórnvalda er vísað í skýrslunni og kemur glöggt fram í erindisbréfi ráðherra til starfshópsins hvert markmið vinnunnar er og á hverju er byggt, þ.e. á stefnu stjórnvalda í þeim málum. Er það þá í fyrsta skipti sem lagt er út í vinnu af þessu tagi af jafnmikilli alvöru og hér er gert.

Auk þess sem vitnað er til stefnu ríkisstjórnarinnar og þeirra markmiða sem hún hefur sett sér eru Íslendingar skuldbundnir af alþjóðasamningum og hafa tekið að sér að innleiða meðal annars ýmsar tilskipanir Evrópuþingsins og Evrópuráðsins varðandi þau mál og út frá því sett sér þau markmið að um 10% af endurnýjanlegri orku í samgöngum verði orðið að veruleika árið 2020. Eins og komið hefur ítrekað fram í dag er hlutur endurnýjanlegrar orku í samgöngum rétt innan við eða vel innan við 1% í dag, þannig að þetta eru mjög háleit markmið sem koma hér fram.

Mér gefst ekki tími til að fara ítarlega yfir skýrsluna á þeim stutta tíma sem mér er ætlaður. Í henni eru mjög áhugaverðir kaflar sem ég hef kynnt mér og lesið, t.d. varðandi orkusparnað í fiskiskipaflotanum, sem er verulega orkufrek atvinnustarfsemi en þó miklir hvatar til að spara orku. Þar standa íslensk fyrirtæki — ekki endilega sjávarútvegsfyrirtæki heldur líka fyrirtæki í hátækniiðnaði, hátæknigeiranum og við veiðarfæragerð sérstaklega — mjög framarlega og líklega á heimsvísu í veiðarfæragerð við að útbúa orkufrek veiðarfæri, togveiðarfæri, flotvörpuveiðarfæri og fleiri stærri veiðarfæri fyrir stór skip, að hanna þau og útbúa með þau markmið í huga að spara orku. Þessi fyrirtæki hafa náð að skapa sér nafn og vera leiðandi á þessu sviði víðs vegar í heiminum, sömuleiðis fyrirtæki í nýjum iðnaði varðandi orkusparandi búnað á vélar stærri skipa. (Forseti hringir.) Færin okkar eru því ekki eingöngu hér innan lands á þessum vettvangi heldur sömuleiðis á alþjóðavísu.