140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

orkuskipti í samgöngum.

377. mál
[14:50]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Við ræðum mikilvægt úrlausnarefni sem rætt er um alls staðar á Vesturlöndum og auðvitað víðar. Hér er kvartað yfir hækkandi bensínverði og var það rætt áðan, menn vilja úrlausn strax með einhverjum hætti. En það er ekki bara hér — og þetta er allt saman ríkisstjórninni að kenna eða einhverjum vondum mönnum en í þeirri umræðu ber ekki mikið á lausnum í þá veru sem við erum að tala um hér — það er hækkandi bensínverð og það á eftir að hækka enn meira. Það er ekki bara það heldur líka loftslagsváin mikla sem fram undan er og við færumst undan að reyna að leysa.

Í Þýskalandi er núna talað um „Energiewende“. Það er merkilegt og gæti valdið þáttaskilum. Þjóðverjar eru vanir að klára það sem þeir ætla sér. Stundum hefur það nú verið hindrað sem betur fer, en þeir eru dugleg þjóð og eru vísir til að valda vatnaskilum í þessum efnum. Það er líka umræða í grannlöndunum og er skemmst að minnast þess, af því að ég er nýkominn frá Frakklandi, að þar er frambjóðandi sósíalista, Hollande, búinn að setja fram dagskrá þar sem hann lofar því að þáttur kjarnorkunnar í orkuframleiðslu í Frakklandi fari úr 75% í 50% á næsta kjörtímabili forseta.

Ég fagna þessari skýrslu, forseti. Þetta er mikill efniviður og dreginn saman verulegur fróðleikur, í stuttu máli frekar. Settar eru fram tillögur um aðgerðir tímasettar í tengslum við önnur verkefni sem eru að klárast eða eru á leiðinni, svo sem orkustefnuna og græna hagkerfið, og allt er þetta þáttur í umhverfisstefnu ríkisstjórnarinnar sem bregður verulega frá því sem hér var áður gert í 18 ár mínus tvö.

Við höfum auðvitað ákveðna sérstöðu í þessu. 80% orkunnar eru frá öðru en jarðefnaeldsneyti. Samgöngur og sjávarútvegur eru hins vegar svörtu blettirnir í okkar ástandi. Ég fagna þeim hugmyndum sem koma fram í skýrslunni um þau efni, ekki síst um almannasamgöngur, hjólreiðar og göngur sem mætti tala um langt mál.

Ég verð svo að segja líka að ég sakna þess í skýrslunni að ekki sé lögð meiri áhersla á það sem ekki er framtíðarlausn í samgöngum, þ.e. í bílamálunum, heldur nútímalausn, sem er metanorkan. Metanbílum fjölgar nú nánast dag frá degi, sennilega hefur þeim fjölgað um nánast helming bara á árinu 2011 í framhaldi af hagrænum hvötum sem við bjuggum til hér í salnum með breytingu á vörugjöldum og fleiri aðgerðum. Núna er fram undan, og það sem ríkið ætti að vera að gera er að styðja uppbyggingu dreifikerfis — ég tek þar undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni — um landið. Við þurfum fimm eða sex staði til þess að loka hringnum fyrir metanið. Það er þar sem áhersla okkar á að liggja næstu árin þó að við eigum að sjálfsögðu að leyfa (Forseti hringir.) þúsund blómum að spretta í þessu þangað til tíminn leiðir í ljós hvaða leið eða hvaða leiðir verða bestar fyrir það „Energiewende“ sem við þurfum líka að skapa hér á landi.