140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

orkuskipti í samgöngum.

377. mál
[14:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Eins og aðrir ræðumenn í umræðunni þakka ég fyrir þá skýrslu sem fyrir liggur og tek undir orð síðasta hv. ræðumanns um að í henni er mikill efniviður sem gefur tilefni til frekari vinnu. Um leið og hér er á ferðinni ágætt yfirlit yfir stöðu mála er eins gagnlegt að horfa á þann þátt sem kalla má aðgerðaáætlun þar sem búið er að skipta þessu verkefni upp í nokkur eða allmörg afmörkuð verkefni sem sum eru komin vel á veg en önnur skemur. Það er hins vegar til mikillar fyrirmyndar að hafa lista af því tagi sem hægt er að leggja mat á og vinna eftir. Mörg af þeim verkefnum eru býsna afmörkuð og raunhæf, önnur eru kannski aðeins loftkenndari, ef svo má að orði komast, án þess að ég vilji gera lítið úr tillögunum sem slíkum en þær eru ekki eins áþreifanlegar. Engu að síður er um mjög gagnlegt yfirlit að ræða.

Varðandi þau markmið sem stefnt er að er það rétt sem hér hefur komið fram að annars vegar hlýtur vinna á þessu sviði að miðast við stefnu í loftslagsmálum og eins þurfa menn að hafa í huga þá hagkvæmnisþætti sem tengjast minni notkun jarðefnaeldsneytis. Leiðirnar til þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis eru í meginatriðum tvær. Annars vegar einfaldlega minni notkun, þar geta menn horft á lausnir eins og minni eldsneytisnotkun hverrar einstakrar vélar, ef svo má segja, eða hverrar einstakrar einingar. Við höfum séð þróun hjá framleiðendum bílvéla til dæmis sem hefur þegar skilað árangri.

Eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason nefndi áðan hafa orðið mjög miklar framfarir, m.a. fyrir forgöngu íslenskra fyrirtækja, í sambandi við bætta og minnkandi orkuþörf eða orkunotkun í fiskiskipaflotanum sem er mjög áhugavert mál.

Hin hliðin er að greiða leið nýrra orkugjafa sem geta leyst jarðefnaeldsneytið af hólmi eins og hér hefur verið nefnt um metan, sem er svona lykilorð dagsins, vegna þess að þar er um að ræða nokkuð raunhæfan og góðan kost fyrir okkur í dag.

Ég tek þó, hæstv. forseti, undir það sem hv. síðasti ræðumaður, Mörður Árnason, sagði að við verðum auðvitað að láta þúsund blóm vaxa, eins og sameiginlegur vinur okkar beggja sagði upphaflega (Forseti hringir.) og við getum ekki enn séð fyrir nákvæmlega hvaða stefnu þetta tekur, þannig að við verðum að gæta ákveðins jafnræðis milli mismunandi orkugjafa í því sambandi.