140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

félagsleg aðstoð.

50. mál
[15:21]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar endaði ræðu sína kannski á því svari sem ég ætlaði að kalla eftir í andsvari, en mér fannst hv. þingmaður misskilja í upphafi máls síns það frumvarp sem hér er lagt fram.

Ekki veit ég hvort það skiptir máli hvaða flutningsmenn eru á þessu, en frumvarpið lýtur að, að því er ég tel, mjög fáum einstaklingum sem búa við þær aðstæður að geta ekki ekið bifreið og enginn með lögheimili á sama stað getur það heldur. Dæmi eru um það. Ég þekki til gamals dæmis þar sem búið er að óska eftir breytingum á þessari reglugerð án árangurs fyrir einstakling sem er á sambýli þar sem aðstæður eru þannig að ekki hefur verið hægt að endurnýja heimilisbílinn og þessi einstaklingur veit fátt betra en einmitt að fara í ökuferð og skoða sig um. Þetta er held ég lítill hópur einstaklinga sem um ræðir og er út undan.

Ég treysti nefndinni fyllilega til að meta þetta mál frá A til Ö og kanna allar hliðar á því. Ég vona svo sannarlega að nefndin muni hraða vinnu við það og reka ekki hornin í málið. Ef það er hins vegar vilji til að endurskoða bifreiðastyrki og lögin og reglugerðina í heild sinni hef ég ekkert á móti því, tel fulla ástæðu til þess.