140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

félagsleg aðstoð.

50. mál
[15:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta var býsna skýrt hjá þingmanninum.

Það sem er kannski ástæða til að nefna aðeins hér er sú þróun sem hefur orðið víða í kringum okkur og mætti vera hraðari hér. Hún lýtur að því að dreifa ekki stuðningnum við hóp eins og fatlaða í alls konar afmörkuð hólf, þ.e. að menn geti fengið ákveðinn stuðning hér til bifreiðakaupa og ákveðinn stuðning þar til ferðaþjónustu og ákveðinn stuðning hér til vinnu o.s.frv., heldur að horfa frekar á þetta heildstætt og þaðan á hvern og einn einstakling og styrkja ekki einhverja hluti eins og kaup á bifreiðum heldur styrkja einstaklinginn til sjálfshjálpar og reyna þannig að átta sig á því hversu mikla fjármuni er verið að nota til að hjálpa þessum tiltekna einstaklingi að lifa sjálfstæðu lífi, afmarka þá fjármuni og leyfa þeim einstaklingi að forgangsraða þeim sjálfur — hverju hann telur sig þurfa mest á að halda, hvort sem það er persónuleg liðveisla, menntun, ferðaúrræði eða hvað það er, þannig að við á Alþingi séum ekki að forgangsraða hlutum í lífi fólks heldur sköpum við því aðstöðu til að gera það sjálft. Ég held að það sé að mörgu leyti jákvæð þróun sem við ættum í ríkari mæli að horfa til í málefnum fatlaðra. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)