140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

félagsleg aðstoð.

50. mál
[15:35]
Horfa

Flm. (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans góðu og yfirgripsmiklu ræðu um þetta mál. Ég vil líka hvetja hæstv. forseta til að rifja hér upp fyrir okkur á eftir hvaða mál eru farin af dagskrá. Hv. þingmaður lýsti þessu ágætlega, þetta er ekki stórt mál, en þetta er stórt mál fyrir fáa.

Ég verð að viðurkenna fyrir hv. þingmanni að þegar undirritaður var að semja þetta frumvarp fyrir um það bil þremur árum — þetta er endurflutningur á málinu — gekk mjög illa að afla upplýsinga um fjölda og kostnað þannig að það sé bara viðurkennt hér, það var mjög erfitt að fá upplýsingar um það. Það eina sem undirritaður hafði upp úr krafsinu en taldi ekki rétt að setja hér inn af því að það væri óábyrgt að gera það, var að þetta væri talinn óverulegur fjöldi. Kostnaðurinn getur hins vegar væntanlega verið eitthvað mismunandi.

Ég treysti nefndinni fyllilega til að fara vel yfir þetta mál og skila frá sér greinargerð og þá um það hvort þetta sé talið óyfirstíganlegt eða ekki. En þetta er fyrst og fremst réttlætismál.