140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

sveitarstjórnarlög.

258. mál
[15:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég vona svo sannarlega að þessi tillaga muni njóta stuðnings á þinginu. Mig langar að þakka hv. þm. Þór Saari fyrir að hafa sett hana saman.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hann sjái fyrir sér að hægt væri að virkja almenna borgara til að vera meiri þátttakendur í að skapa og hafa áhrif á samfélag sitt. Telur þingmaðurinn að möguleiki sé á að fólk beiti sér meira til að hafa áhrif á nærsamfélag sitt ef fleiri fulltrúar væru í borgarstjórnum og sveitarstjórnum? Finnst þingmanninum mikilvægt að kosningar borgarbúa eða landsbyggðarbúa séu bindandi eða ættu þær ekki að vera bindandi? Varð þingmaðurinn fyrir vonbrigðum með að í frumvarpi til sveitarstjórnarlaga nýverið var ekki tiltekið að þær kosningar yrðu bindandi heldur aðeins leiðbeinandi?

Mig langar einnig að spyrja hv. þingmann að því hvað honum finnist um þá tilraun sem gerð hefur verið hér í Reykjavík sem gengur undir nafninu Betri Reykjavík, þar sem borgarar eru hvattir til að hafa áhrif á samfélag sitt á vefnum Betri Reykjavík? Hefur þingmaðurinn einhverjar tillögur um hvernig hægt væri að gera þær tillögur meira bindandi en þær eru nú þegar?