140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

sveitarstjórnarlög.

258. mál
[15:57]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirra skoðunar að áhugi íbúa aukist í réttu hlutfalli við aukin áhrif þeirra, þ.e. að tekið sé mark á því sem þeir leggja til.

Hv. þingmaður minntist á vefinn Betri Reykjavík. Vefurinn Betri Reykjavík er risaskref í þá átt og hefur komið fjölmörgum málum til lykta innan borgarkerfisins. Það hefur verið mjög athyglisvert að fylgjast með því hvernig núverandi stjórnvöld í Reykjavík fikra sig í lýðræðisátt með því að bjóða upp á nánast beina þátttöku íbúanna í gegnum netið.

Hvað varðar það að gera slíka umræðu eða kerfi bindandi, hef ég efasemdir um það hreinlega lagalega séð. Ég tel að það sé ekki gott að gera einhverjar meiri háttar breytingar á lögum eða starfsháttum sveitarfélaga nema slíkt sé gert með viðurkenndum atkvæðagreiðslum, hvort sem þær yrðu rafrænar eða með öðrum hætti. En það sem hefur gerst í Reykjavík er náttúrlega stórt skref í lýðræðisátt og ég tel að íbúar muni beita sér meira ef þeir fá fleiri tækifæri til þess.

Hvað varðar þau atriði sem ættu að vera undanskilin í slíkum almennum atkvæðagreiðslum, legg ég ekki til breytingu við eftirfarandi málsgreinar í 108. gr. laganna þar sem segir orðrétt:

„Almennrar atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. verður ekki krafist um efni fjárhagsáætlunar skv. 62. gr. og viðauka skv. 63. gr., um tekjustofna sveitarfélaga eða álagningu annarra lögheimilla gjalda, um ráðningu í störf hjá sveitarfélagi, um laun og önnur starfskjör sveitarstjórnarmanna eða starfsmanna sveitarfélags eða tillögu sem gengur gegn lögum eða mundi leiða til þess að lagaskyldu yrði ekki fullnægt af hálfu sveitarfélagsins. “

Þetta eru varnaglar í sveitarstjórnarlögunum og ég held að það sé rétt að hafa flesta þarna áfram, alla vega þangað til einhver reynsla kemur á svona fyrirkomulag.