140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

ályktun utanríkisnefndar ESB.

[15:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef aldrei hitt þessa nefnd og ég veit ekkert á hverju hún byggir þetta mat sitt. Það er að minnsta kosti ekki af neinum samskiptum við mig, svo mikið er víst. Ég hef hitt einhverja kommissara þarna, bæði fyrir og eftir þann tíma sem menn tala hér um. Til dæmis á fyrsta fundi sem ég átti með hinum rómaða stækkunarstjóra, Stefan Füle, gerði ég honum mjög skýrt og greinilega grein fyrir þeirri stöðu sem væri uppi í þessu Evrópusambandsmáli hér á landi og að stjórnarflokkarnir hefðu þar ólíka afstöðu og það yrði Evrópusambandinu að vera ljóst. Það voru hreinskiptnar viðræður og hefur oft verið vitnað til þeirra síðan og vitnað í þá fundargerð sem var færð af þeim fundi og ég trúi að utanríkisnefndarmenn gætu að minnsta kosti fengið afrit af. Þessi nefnd byggir á einhverju öðru en upplýsingum eða samskiptum við mig. Kannski hefur hún tekið mark á ruglinu hér heima og gert það að sínum sannleika. Það skal ég ekki um segja.

Varðandi umfjöllun hennar um Ísland að öðru leyti tek ég undir það með hv. fyrirspyrjanda, að því marki sem ég tók mark á þessu eða lagði á mig að lesa þetta, að mér fannst í raun óviðeigandi á margan hátt hvað nefndin var mikið að setja sig í stellingar af því tagi að hún væri að veita okkur einhverja leiðsögn úr fjarlægð. Ég kann því ekkert sérstaklega vel. Það hefur ekkert endilega þau áhrif á mig að ég verði meira upp með mér af þeirra framlagi til málsins. Það er að sjálfsögðu ekki hennar að hlutast til um innlend stjórnmál eða segja okkur fyrir verkum.