140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

ályktun utanríkisnefndar ESB.

[15:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem blasir við er einfaldlega þetta: Nú erum við í þeirri stöðu að við höfum sótt um aðild að Evrópusambandinu, ekki til að skoða kosti þess og galla eins og hæstv. ráðherra hélt fram í blaðagrein nýlega heldur vegna þess að við erum að sækja um aðild. Þá er greinilegt að Evrópusambandið telur sig vera komið í þá stöðu að það geti farið að segja okkur til, útskýra fyrir okkur hvað hafi tekist vel, hverju við eigum að breyta, hvað við eigum að gera o.s.frv. Það er grunntónninn í þessari ályktun. Látum vera þótt það hafi skoðanir á hrókeringunum og segi sem svo að hæstv. núverandi ráðherra muni ekki standa í lappirnar gagnvart þeim varðandi aðlögun og aðildarumsókninni að Evrópusambandinu. Ég skil vel að hæstv. ráðherra taki því ekki vel. Hitt er miklu alvarlegra að mínu mati, að þessi mikla stofnun leggi okkur einhvers konar lífsreglur.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort það sé almennt þannig þegar þjóðir sækja um aðild að Evrópusambandinu að þær fái þá lífsreglur úr einhverjum nefndum eins og utanríkisnefnd Evrópusambandsins sem segi (Forseti hringir.) þeim til um hvar eigi að leyfa auknar erlendar fjárfestingar áður en þær gerist aðilar, hvernig þær eigi að breyta löggjöf um fjölmiðlana (Forseti hringir.) o.s.frv.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur enn þingmenn til að virða tímamörkin.)