140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

rammaáætlun í orkumálum.

[15:26]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns að hér er um gríðarlega mikilvægan faglegan grundvöll að ræða. Þetta er ekki mál sem á sér stutta sögu heldur gríðarlega langa. Sem betur fer hafa þingmenn allra flokka áttað sig á mikilvægi þess á öllum tímum. Hins vegar er það samkvæmt lögum frá hv. Alþingi verkefni ráðherranna tveggja að leggja þingsályktunartillögu fram fyrir þingið til úrvinnslu. Það munum við auðvitað gera. Þegar hv. þingmaður notar orð eins og hrossakaup um slíka vinnu held ég að það hljóti að stafa af hans eigin reynsluheimi.