140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

málfrelsi grunnskólakennara.

[15:27]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp að gefnu tilefni til að ræða hlutverk, réttindi og skyldur grunnskólakennara í þessu landi. Vakin hefur verið athygli á því að kennarar geta talað með ýmsum hætti um ýmis málefni. Mig langaði að tala hér almennt um þetta efni en ekki fara ofan í saumana á persónum og leikendum í þessu máli, en auðvitað verðum við að staldra við þegar kennarar við grunnskóla landsins tala þannig að mjög særandi getur verið fyrir nemendur sem eru vel að merkja á viðkvæmum aldri, eru að móta lífssýn sína, eru að móta kynhneigð sína og þau skref sem þau ætla að taka í menntun sinni og framtíðarstarfi. Því hlýtur að vera gerð sú ríka skylda til grunnskólakennara sem eru einstaklega áhrifamiklir þegar kemur að mótun barna og unglinga hér á landi að þeir hagi orðum sínum jafnt innan vinnu sem utan þannig að þau séu ekki særandi fyrir börn sem ef til vill eru að leita að sínum innri manni.

Ég vík því þeirri spurningu til hæstv. menntamálaráðherra hvort skorður eigi að vera við málfrelsi grunnskólakennara hér í landi þegar kemur að viðkvæmum málum, svo sem kynhneigð og öðrum slíkum málum sem hafa lengi vel legið í þagnargildi en svo er ekki lengur. Sá sem hér stendur og væntanlega þingheimur allur telur að samkynhneigð, ef út í það er farið, sé eðlileg kynhneigð en þegar grunnskólakennarar haga orðum sínum svo að þar eigi dauðinn einn að gjalda (Forseti hringir.) er spurning hvort málfrelsi eigi að hafa einhverjar skorður. Þess vegna leita ég til ráðherra með þetta efni.