140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

málfrelsi grunnskólakennara.

[15:32]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir svörin. Hér er um viðkvæmt mál að ræða en engu að síður fullkomlega eðlilegt að ræða það innan sala Alþingis. Að mati þess sem hér stendur er einn af lykilþáttum skyldunáms á Íslandi að börnum líði vel í skólum. Þau eru skyldug til að mæta í sinn skóla og þá skal þeim vera búinn vettvangur þar sem þeim líður vel.

Það er mjög athyglisvert að samfélag okkar geti ekki brugðist við þegar menn tjá sig með mjög afgerandi hætti utan þess þanþols sem almenn umræða þolir. (Forseti hringir.) Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort málfrelsi í þessu tilviki eigi að hafa takmörk þegar kemur að uppeldi barna.