140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

verndun og nýting.

[15:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Út af fyrir sig er þetta nægilegt svar frá hæstv. ráðherra en það breytir því ekki að á sama tíma og menn hafa talað um á liðnum árum að ekki megi taka neina ákvörðun um nýtingu náttúruauðlinda til orkuöflunar og þess vegna eigi að bíða eftir niðurstöðu rammaáætlunar hafa núverandi ríkisstjórn og hæstv. ráðherra tekið ákvarðanir um að fara á ákveðin svæði sem hafa verið til umfjöllunar og sagt að þau skuli vernda á meðan vinnan við rammaáætlun var í gangi.

Núna hefur það líka komið fram hjá hæstv. ráðherra að meiningin hjá ríkisstjórnarflokkunum sé að ná niðurstöðu áður en málið fari til Alþingis þannig að því verði ekki breytt þar, þ.e. nota minnsta mögulega meiri hluta í þinginu til að knýja í gegn skoðun þessara tveggja flokka sem eru í stjórn en það eigi ekki að fara hér í lýðræðislega umræðu og skoðun. Þetta finnst mér að nokkru leyti ámælisvert.