140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

orð ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ekki ætla ég að minnast einu orði á það sem hér fór á milli okkar hæstv. umhverfisráðherra, heldur langaði mig að koma fram með fyrirspurn, ábendingu eða jafnvel átelja þá fundarstjórn hæstv. forseta að fyrr í þessum fyrirspurnatíma, þegar hv. formaður Framsóknarflokksins var hér að ræða við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra, leyfðist þeim ráðherra að vera með óviðurkvæmileg frammíköll eins og „þegiðu“ og „drullist þið nú til“ án þess að gerðar væru nokkrar athugasemdir við það. Ég held að þetta sé hvorki þinginu né framkvæmdarvaldinu til sérstaks framdráttar eða sóma og mér hefði fundist eðlilegt að forseti þingsins hefði gripið til harðari aðgerða gagnvart frammíköllum hæstv. ráðherra.