140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

áhrif banns við formerkingum á verðlag.

445. mál
[15:52]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta mjög áhugaverð umræða og ég skil hæstv. ráðherra sem svo að neytendur hafi notið góðs af hinu nýja kerfi með skönnunum þannig að kjöt sé ekki verðmælt fyrir fram á hverja einingu.

Ég hef áhuga á að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann viti hvort þetta fyrirkomulag hafi minnkað sölu á þeim vörum sem neytendur þurfa að skanna. Ég tel að hið nýja kerfi sé að vissu leyti íþyngjandi fyrir neytendur, að þeir geti ekki séð verðið á vörunni, þurfi til dæmis að taka kjötvörur og bera þær upp að skannanum og lesa á hvað varan kostar. Í hraða nútímans veigra sumir sér við slíku þannig að ágiskun mín er sú að salan á þessum vörum hafi eitthvað dregist saman vegna þessa nýja kerfis. Hefur hæstv. ráðherra einhverjar upplýsingar um hvort það sé algengt að fólk veigri sér við að nota skannana þannig að dregið hafi (Forseti hringir.) úr sölu á þeim vörum?