140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

sauðfjárbú.

430. mál
[16:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að ræða stöðu sauðfjárbúa á Íslandi. Varla þarf að fara mörgum orðum um það, frú forseti, að tæplega hefur í nokkurri annarri atvinnugrein á Íslandi orðið jafnmikil breyting á högum starfsfólks og í landbúnaði. Árið 1940 voru 32% vinnuafls á Íslandi í landbúnaði en nú er hlutfallstalan 2,5%. Breytingin er vitaskuld gífurleg. Nægir að nefna að íslenskum bændum hefur fækkað um 26% bara á síðasta áratug, svo vitnað sé í nýfengið svar frá fyrrverandi hæstv. landbúnaðarráðherra við fyrirspurn minni á síðasta ári. Breytingarnar eru því verulegar. Hins vegar vekur athygli að á sama tíma og nautgripabúum hefur fækkað hafa þau mörg stækkað og fyrirtækin í þeim geira, nautgriparækt, eru orðin stærri og þróttmeiri. Enn þá er það svo að allmargir bændur á Íslandi reka mjög lítil sauðfjárbú og sum, alls ekki öll, eru jafnvel til trafala innan sinna sveitarfélaga. Það vekur athygli þingheims á því að sauðfjárbú eru ekki háð starfsleyfum og má um það deila af hverju sauðfjárbú, ein búa, eru á undanþágu gagnvart starfsleyfisskilyrðum.

Sá sem hér stendur ferðast víða um landið og þar heyrir hann gagnrýnisraddir, m.a. frá sveitarstjórnarmönnum, um að sauðfjárbú skuli ekki vera háð starfsleyfum. Niðurstaðan í nokkrum tilvikum er sú að bændur þurfa ekki að standa skil á rekstri fjár á heiðum uppi og fyrir vikið þurfa viðkomandi sveitarfélög að verja miklum fjármunum, tíma og mannskap til að ná þessum gripum af fjalli og bera kostnaðinn af því algjörlega sjálf, enda þarf ekki starfsleyfi til þess að hafa rollur heima hjá sér. Ég spyr því hæstv. landbúnaðarráðherra:

1. Hvað eru mörg sauðfjárbú á landinu?

2. Hversu mörg þeirra hafa fengið aðvörun yfirvalda fyrir vanrækslu á sauðfé síðustu tíu ár?

3. Hver er ætlaður kostnaður sveitarfélaga af eftirliti með sauðfjárbúum?