140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

hvalveiðar og stjórn fiskveiða.

452. mál
[16:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Áður en ég byrja að svara þessari kippu fyrirspurna frá hv. þingmanni vil ég gjarnan láta það koma fram að ég hef hafist handa um það aftur í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að fara yfir stöðu þessara mála, svipað og ég reyndar hafði gert þegar ég dvaldi þar um skeið á árinu 2009, m.a. með vísan til þess að efna fyrirheit í stjórnarsáttmálanum um að farið yrði yfir þessi mál á breiðum grunni. Ég setti það lítillega af stað á útmánuðum 2009 og stuðlaði að því að Hagfræðistofnun Háskólans tæki saman álitsgerð um stöðu hvalveiða í þjóðhagslegu samhengi og hef fullan hug á því að vinna áfram að þessum málum almennt séð á þeim grunni að fara yfir þau heildstætt.

Til svara við fyrirspurninni er það þannig að almennt held ég að afstaða ráðuneytis sem og Hafrannsóknastofnunar gangi út frá því að hvalastofnar við landið séu nytjastofnar sjávar eins og aðrir slíkir, þar af leiðandi sé reynt að meta reglubundið stöðu þeirra með tilliti til mögulegs afraksturs og sjálfbærni nýtingar eftir því sem ákvarðanir yrðu teknar um slíkt. Það er grunnur vinnunnar. Tillögur Hafrannsóknastofnunar varða því í raun eingöngu það að reyna að nálgast hvað gæti verið leyfilegur hámarksafli viðkomandi tegundar, en hafa ekki tekið mið af t.d. þáttum sem varða fæðuvistfræðilega stöðu eða hugsanlega samkeppni hvala við aðra nytjastofna. Það er þó almennt viðurkennt meðal fræðimanna að æskilegt væri að geta tekið meira mið af fjölstofnarannsóknum við stjórn fiskveiða almennt og beita þá svokallaðri vistkerfisnálgun.

Núverandi þekkingarstig okkar er hins vegar tæpast fullnægjandi til að byggja á slíku þó að menn hafi fullan hug á að komast í þá stöðu að geta tekið meira mið af heildarsamhengi hlutanna. En það væri eingöngu hægt að gera þegar menn gætu beitt slíkri nálgun, vistkerfisnálgun, af fullnægjandi öryggi. Hafrannsóknastofnun hefur unnið að þessu. Hún hefur á undanförnum árum eftir því sem efnahagur og tími hefur leyft reynt að undirbúa gerð fjölstofna líkans, þar á meðal að varpa skýrara ljósi á til dæmis stöðu hrefnunnar í vistkerfi sjávar við Ísland. Vonir standa til að slíkt líkan geti orðið tilbúið á næsta ári, það ætti þá að auka þekkingu okkar á samspili tegundanna, þar á meðal þekkingu á samspili hrefnu við aðra nytjastofna sjávar.

Í grunninn er svarið við fyrirspurninni nei. Við höfum ekki byggt okkar nálgun á því sérstaklega að veiða þyrfti hvali til að minnka afrán þeirra á öðrum nytjastofnum, en það sjónarmið er auðvitað alþekkt í umræðunni og heyrist iðulega, að þetta sé þáttur sem menn eigi að gefa gaum. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart þó að menn fjalli um það eða haldi því fram sem rökum. Ég hygg að við heyrum það oft þegar við hittum sjómenn og jafnvel fræðimenn að þeir benda auðvitað á þetta samspil málanna.

Af því hv. þingmaður spyr nokkuð um persónulega afstöðu ráðherra — það er eðlilegt að það sé gert, jafnvel þótt orðalagið hafi verið sniðið að öðrum en þeim sem hér stendur í sumum tilvikum — þá hef ég alltaf nálgast þetta í sambandi við hvalinn einfaldlega út frá þeim árekstrum sem umsvifalaust koma upp þegar menn segja annars vegar að við mundum þá ætla að stunda sjálfbæra nýtingu, en hins vegar að við þurfum að veiða niður hvalastofnana til að minnka afrán þeirra á fiski. Þetta tvennt fer illa saman vegna þess að sjálfbær nýting mundi að sjálfsögðu eiga að miða að því að hvalastofnarnir væru í fullri stærð og gæfu hámark af sér ef við nálgumst þetta tegund eftir tegund. Þar með samrýmist það auðvitað ekki þeirri hugsun að veiða beinlínis niður einhverjar tegundir í lífríkinu til að minnka afrán þeirra.

Þarna eru því býsna snúnir hlutir uppi ef við förum aðeins dýpra í þetta en bara að slá um okkur og segja: Sjálfbær nýting annars vegar og hins vegar að við þurfum beinlínis að reyna að stjórna í hinu vistfræðilega samspili tegundanna og getur nú reynst flókið að ráða við það. Ég veit ekki um nokkurn sem getur grófstillt hvað þá fínstillt þá takka í flóknu vistkerfi sjávarins.