140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

hvalveiðar og stjórn fiskveiða.

452. mál
[16:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir svarið, og reyndar einnig þeim náttúrufræðingi sem býr í sama manni, því að mér þótti það ákaflega skynsamlegt og með öðrum hætti en hér tíðkast yfirleitt í umræðunni.

Það er mála sannast að hafið er ósköp einfaldlega of flókið til að geta dregið þar nokkrar ályktanir af viti um samspil stofnana. Þau fjölstofna líkön og rannsóknir sem hingað til hafa farið fram um þetta eru meira og minna gallaðar, að ég ekki segi marklausar. Sá er til dæmis dómur Arnþórs Garðarssonar fræðimanns um það fjölstofna líkan sem Hagfræðistofnun Háskólans notaði í síðustu hvalaskýrslu, mjög harður dómur um líkanið — hann biðst vægðar þeim mönnum sem bak við það standa því að töluvert sé liðið síðan það var gert — og reyndar um skýrsluna líka.

Það er mikilvægt að við vitum af því að málin eru allt of flókin til þess að geta reiknað út aukinn þorskkvóta á hvern hval. Ég bið Tómas H. Heiðar og aðra embættismenn á vegum íslensks almennings að athuga að þegar þeir fara mikinn, hvort sem það er hér heima eða í fjölmiðlum erlendis, verði það að vera þannig að hægt sé að taka fullt mark á þeim fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, og að þeir menn fari ekki með tóma dellu í þessum efnum. Nóg er nú samt.