140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

hvalveiðar og stjórn fiskveiða.

452. mál
[16:24]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta er eiginlega að hluta til orðið að óundirbúnum fyrirspurnatíma þegar ég fæ spurningu um villidýralöggjöfina og hvort hvalir og selir eigi fremur að heyra þar undir. Ég skil svo sem alveg það sjónarmið, en á móti kemur það sem ég fór reyndar yfir í svari mínu hvernig við höfum nálgast þessi mál að hvalir og selir væru nytjastofnar eins og aðrir slíkir í lífríki sjávarins. Þannig stendur það í okkar lögum.

Það er í öðru lagi þannig að helstu réttarákvæðin sem um þetta gilda eru í hafréttarsamningnum sem tvímælalaust er á verksviði sjávarútvegsráðuneytisins og/eða utanríkisráðuneytisins, og hefðin hér og löggjöf, fátækleg sem hún er, um hvali eða hvalveiðar tilheyrir sömuleiðis þar undir. Það er nú kannski ekki einhlítt. Ég held að það ætti þá að vera á grundvelli einhverrar nýrrar stefnumótunar sem menn hefðu orðið ásáttir um í þessum málaflokki ef þetta hefði að einhverju leyti vistaskipti.

Varðandi efni fyrirspurnarinnar að öðru leyti held ég við gætum alveg sýnt umburðarlyndi gagnvart þeim ólíku skoðunum sem oft eru uppi í þessum efnum og þeirri umræðu sem við öll gjörþekkjum, hversu vísindaleg sem hún er. Út af fyrir sig er það ekkert skrýtið þó að menn bendi á afrán hvala ef þeim fjölgar. Ef þeir verða fyrirferðarmiklir í lífríkinu hefur það auðvitað sín áhrif. Það skiljum við. Hitt er allt annað mál hvort og hvernig við ætlum okkur að gera eitthvað í því máli sem slíku. Það var til þess sem ég var að vísa þegar ég lýsti efasemdum mínum um að við, vesæll maðurinn, værum þess umkomin að reyna að grófstilla hvað þá fínstilla það gangverk.