140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

sjálfbærar hvalveiðar.

453. mál
[16:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Þetta er nú eiginlega stjórnsýsluleg, náttúrufræðileg og málfræðileg spurning en hún snýst í raun og veru um merkingu lýsingarorðsins sjálfbær í hugtakinu sjálfbærar hvalveiðar eða í hugtakinu sjálfbær nýting hvalastofna eða lifandi auðlinda, sem hefur heyrst talsvert frá íslenskum stjórnvöldum og er meðal annars notuð í þeirri grein eftir Tómas H. Heiðar sem ég rakti áðan, „sustainable whaling“ er það á frummálinu þar. Það er vont með orðið sjálfbær að það er farið að merkja í raun og veru allan skrattann. Það þýðir umhverfisvænn og arðbær og sjálfum sér nógur, eitthvað sem ekki mengar er sjálfbært og oft er gripið til þessa orðs ef svona almennt þarf jákvætt orð. En ég held að rétt sé að fara sparlega með það. Það á auðvitað uppruna sinn a.m.k. í einhvers konar nútíma fræðilegri merkingu eða stjórnsýslulegri merkingu í Brundtland-skýrslunni frá 1987, hinni frægu, sem hæstv. ráðherra þekkir betur en flestir hér í þingsölum, og á að nota það í því samhengi, tel ég, og ekki öðru.

Svo er auðvitað spurning hvort sjálfbærar veiðar í þeirri merkingu sem sjálfsagt er aðallega í það lögð, þ.e. veiðar sem ekki eru ágengar, sem ekki fela í sér rányrkju, sem eru þolnar eða hvaða orð sem ætti að nota yfir þetta, hvort þær séu um leið sjálfbærar í almennri merkingu orðsins ef þær eru til dæmis ekki arðbærar fyrir efnahagslíf Íslendinga, ef meginhluti aflans selst ekki, ef veiðarnar spilla öðrum greinum og stöðunni á mörkuðum fyrir til dæmis fisk. Og einkum er það kannski athyglisvert spurning hvort veiðar geta verið sjálfbærar þegar afli er ekki allur hirtur og ekki unninn nema lítill hluti af skepnunni sem er í þessu tilviki heyrist manni, skrokknum kannski kastað í sjóinn eða urðaður mestan part hér á landi. Þá vakna auðvitað spurningar um réttmæti þess að kenna slíkar veiðar við sjálfbærni.

Þetta er fróðlegt að fá að vita, vegna þess að þetta er eitt af þeim orðum sem við notum hvað mest hér, Íslendingar, þegar við tölum um umgengni við auðlindir okkar, þar á meðal er hvalaauðlindin og sjávarauðlindin. Hér þurfum við líka að fara afar varlega til að vera ekki rekin á gat eða snúið öfugum í umræðu sem er okkur mjög viðkvæm gagnvart umheiminum.