140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

sjálfbærar hvalveiðar.

453. mál
[16:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tel að þau séu dálítið langsótt dæmin sem hv. þingmaður nefndi hérna síðast, að líkja þeim við hvalveiðar þar sem kjötið af hvalnum og annað sem nýtanlegt er, hvort sem það er lýsi eða eitthvað annað, er nýtt. Ég vísa bara aftur til þessarar skilgreiningar og hana viðhöfum við víða þannig að við þurfum að átta okkur á því að þetta er sú grunnregla sem við byggjum á, þ.e. að mönnum beri að koma með að landi og nýta það sem nýtanlegt er, sem er sem sagt hægt að koma í verð eða ráðstafa til gagns, en algerlega ónýtanlegir hlutir séu hins vegar ekki undir sömu sök seldir. Á því höfum við byggt hina líffræðilegu skilgreiningu á sjálfbærnihugtakinu í þessum efnum.

Ég ætla bara að endurtaka það þó að ég eigi kannski eina fyrirspurn eftir enn að ég vona að hv. þingmaður og fyrirspyrjandi hafi tekið eftir því að ég boðaði að ég hefði hug á því að koma þessum málum aftur í þann farveg að farið yrði yfir þau heildstætt. Ég tel að það sé þörf á því. Við erum að ræða þetta svolítið oft í lausu lofti hér ár eftir ár og oft eru uppi skiptar skoðanir um þessi mál. Það þarf auðvitað að liggja skýrt fyrir hver meginstefna Íslands er í þessum efnum. Við þurfum á því að halda sem erum bundin af ákvörðunum Alþingis í þessum efnum, framkvæmdarvaldið, að vita hvaða leiðsögn við höfum um það hvernig eigi t.d. að halda á málstað Íslands í alþjóðlegum samskiptum að þessu leyti, en hljótum auðvitað að byggja á því sem Alþingi hefur ákveðið þangað til því er breytt.